Allt í köku
Það var allt í köku í barnastarfinu í Grensáskirkju síðasta þriðjudag. Það var hins vegar allt í besta móti, því boðið var upp á bollakökuskreytingu. Kökuskraut, nammi, kexbitar, súkkulaði og glassúr í regnbogans litum gerðu skreytingarborðið myndarlegt og girnilegt. Boðið var upp á karamellu-, ávaxta- og jarðaberjabollakökur til að skreyta.
Skapandi samvera
Yfirskrift barnastarfsins þessa önnina er Sköpuð til að vera skapandi. Börnin sýndu svo sannarlega sínar skapandi hliðar þegar þau báru fram litskrúðugar og veglega skreyttar bollakökur. Það var greinileg samstaða í hópnum um að fá sem mest úr því sem í boði var. Því voru margar dekkhlaðnar kökur til sýnis við lok stundarinnar.
Þegar öll voru búin að skreyta var auðvitað boðið upp á að smakka kræsingarnar.
Skapandi subbuskapur
Skapandi iðju af þessu tagi fylgir auðvitað mikill subbuskapur. Það sýnir hversu vel tekið var á og mikill metnaður var lagður í skreytingarnar. Glassúrinn litaði ekki aðeins bollakökurnar heldur einnig hendur, munna og einstaka borð. Svona getur listin smitað út frá sér!
Velkomin í barnastarfið
Barnastarfið er á þriðjudögum í Grensáskirkju út október og endar með fjölskyldumessu sunnudaginn 5. nóvember kl. 11.
Kirkjuprakkarar (6-9 ára) eru á þriðjudögum kl. 14:50-16:00 í Grensáskirkju
TTT (10-12 ára) eru á þriðjudögum kl. 16:10-17:10 í Grensáskirkju.
Skráning er á kirkja.is.
Verið velkomin í barnastarfið.