03
2024 December

C-sveit spilaði þrjú tónverk

Það var svo sannarlega mikið líf og fjör í fjölskyldumessu í Grensáskirkju í morgun. C-sveit Skólahljómsveit Austurbæjar mætti á svæðið og fyllti kirkjuna með fögrum og kröftugum tónum. Stjórnandi er Snorri Heimisson, en rúmlega 30 unglingar mönnuðu hljómsveitina. Hljómsveitin spilaði þrjú tónverk í messunni.

Í upphafi var spilað syrpa úr James Bond-kvikmyndunum. Annað kvikmyndalag var spilað í miðri messu, en þá hljómaði verk úr kvikmyndinni How to Train Your Dragon. Í lokin, í tilefni þess að stutt er í aðventu, var spilað All I Want for Christmas eftir Mariah Carey. Snorri hljómsveitarstjóri kynnti lögin og leiddi af glæsibrag.

Almennann kirkjusöng leiddi Ásta organisti ásamt kirkjukór Grensáskirkju.

 

Þakklæti í fyrirrúmi

Í tilefni af þakkargjörðarhátíðinni sem var að líða var mikið fjallað um þakklætið í messunni. Þakkargjörð er ekki aðeins hátíð heldur lífstíll. Kraftur þakklætis er að við einblínum okkur á það sem að við höfum, en ekki það sem okkur skortir. Þakklæti eflir nægjusemi og hógværð. Þakklæti eftir væntumþykju og byggir traust.  

Mikilvægi þakklætis endurhljómaði vel í ritningarlestri sem var lesinn: "Þakkið Drottni því hann er góður, miskunn hans varir að eilífu." (Slm 136.1)

Lifandi kirkja

Boðið var upp á "þakkargöngu" í messunni. Þá fengu öll þau sem mætt voru tækifæri til að ganga um kirkjuna, skrifa niður hvað þau voru þakklát fyrir á post-it miða og líma á veggi kirkjunnar. Þannig fylltum við kirkjuna af sýnilegu og áþreifanlegu þakklæti. Það var fagurt að líta yfir kirkjuna og sjá alla gulu miðana. Hver og einn táknaði þakklætið.

Þetta var lifandi og skemmtileg stund. Við þökkum öllum þeim sem að tóku þátt og voru með.

Bænarefni frá Æskulýðsfélaginu Pony

Í messunni var flutt bæn sem byggð var á bænarefnum frá unglingum úr Æskulýðsfélaginu Pony. Bænina lásu Iðunn og Gréta ungleiðtogar. Margt lá á hjarta unglinganna. Þá var meðal annars beðið fyrir fjölskyldum, ástvinum, gæludýrum, Gindvíkingum, Íslandi, þeim sem upplifa erfiðleika og ofsóknir, friði, velgengni, og gleðilegum jólum.