02
2024 maí

Regnbogafánanum flaggað í tilefni Hinsegin daga

Regnbogafánanum hefur verið flaggað bæði við Bústaðakirkju og Grensáskirkju í tilefni Hinsegin daga, sem standa yfir. Dagarnir nú, eru sem fyrr, áminning til okkar allra um að við eigum að standa vörð um mannréttindi allra í samfélaginu. Hinsegin samfélagið hefur á undanförnum árum dregið vagninn í þeim efnum í samfélagi okkar, verið útverðir mannréttinda og frelsis, og baráttunni er hvergi nærri lokið. Öll berum við þar ábyrgð og skulum leggja okkar lóð á vogaskálar réttlætis, kærleika og virðingar í samfélaginu. 

Regnboginn er gamalt Biblíulegt tákn um sáttmála Guðs og manna. Táknið má finna í ýmsum listaverkum á vettvangi kirkjunnar, eins og í stórbrotnu glerlistaverki Leifs Breiðfjörð í Grensáskirkju. 

Regnbogafáninn talar einnig til okkar á þeim grunni og getur verið okkur öllum tákn og áminning um að við eigum að sýna hugrekki, rækta mildina og auðmýktina í okkur sjálfum og samfélaginu, því þar grær ástin, hlýjan og kærleikurinn. Guð gefi okkur náð til þess.

Gleðilega Hinsegin daga.