04
2024 November

Dagskrá páskahátíðarinnar

Páskarnir eru ein stærsta hátíð kristinnar kirkju í heiminum. Helgihaldið í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, er fjölbreytt, að venju. Auk ferminga sem eru ríkur þáttur í helgihaldinu í kringum páska, á pálmasunnudegi og öðrum degi páska, tekur helgihaldið mið af boðskap daganna.

Á skírdagskvöldi er altarisganga í báðum kirkjum. Þar er minnst síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinum sínum. Altari kirknanna er afskrýtt, sem þýðir að allt sem venjulega hvílir á altarinu, Biblía, kertaljós og blómavasar, er fjarlægt. Fimm rauðar rósir eru settar á altarið sem minna á sár Krists á krossinum. Mörgum hefur þótt áhrifaríkt að taka þátt í helgihaldi kirknanna á skírdagskvöld. 

Á föstudaginn langa er krossfestingarinnar minnst. Sá dagur er því í kirkjunnar samhengi, dagur þjáningarinnar. Helgihaldið er ríkt af tónlist og lestri úr píslasögu Krists. 

Á páskadagsmorgni eru síðan guðsþjónustur í báðum kirkjum klukkan átta árdegis. Upprisa Krists, á páskadagsmorgni, miðlar okkur einhverjum þeim mikilvægasta boðskap sem kirkjan miðlar. Sigur lífsins yfir dauðanum, sigur auðmýktarinnar á valdinu, sigur miskunnar og mildi fyrir miskunnarleysi og hörku. Boðskapur kirkjunnar er hvað skýrastur á páskadagsmorgni. Að loknu helgihaldi á páskamorgni er öllum viðstöddum boðið til morgunverðar í safnaðarheimilum kirknanna. 

Nánari upplýsingar má sjá á myndinni sem fylgir þessari frétt.

Verið hjartanlega velkomin til helgihalds í Fossvogsprestakalli á páskum.