
Góður andi í barnamessunum
Í Fossvogsprestakalli erum við lánsöm með fólk í sóknarnefndum, messuþjónustu, sjálfboðaliðastarfi, kirkjuvörslu, þjónustu í safnaðarheimilum, barnastarfi, æskulýðsstarfi, tónlistarstarfi, prestsþjónustu, kærleiksþjónustu og sálgæslu, svo eitthvað sé nefnt.
Á liðnu hausti vorum við svo lánsöm að fá til liðs við okkur í barnamessurnar í Bústaðakirkju þau Karen, Sólveigu og Arnar. Öll hafa þau gríðarmikla reynslu af leiðtogastörfum á vettvangi kirkju, íþrótta og KFUM&KFUK. Í vetur hafa þau skipt með sér að leiða barnamessurnar í Bústaðakirkju, ásamt prestum og organistum. Endilega komið í barnamessurnar og heilsið upp á Karen, Sólveigu og Arnar.

Sálmar valdir fyrir guðsþjónusturnar
Ánægjulegt er hve samstarf organistanna innan Fossvogsprestakalls er að aukast. Hér má sjá þær Ástu Haraldsdóttur organista Grensáskirkju og séra Sigríði Kristínu Helgadóttur leggja drög að dagskrá helgihaldsins síðasta sunnudag, velja sálmana og slíkt. Ásta hefur þessa dagana annast um tónlistina í helgihaldi Grensáskirkju og einnig Bústaðakirkju, í fjarveru Jónasar Þóris. Jónas Þórir annast síðan um tónlistina í báðum kirkjum og báðum messum sunnudaganna, þegar Ásta er í leyfi. Slíkt samstarf innan prestakallsins er starfinu dýrmætt.
Kostnirnir eru því ýmsir við að tvær kirkjur á höfuðborgarsvæðinu starfi saman innan sama prestakalls, eins og Bústaðakirkja og Grensáskirkja hafa nú gert í nokkur ár.
Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í starfi kirknanna í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju.