28
2024 November

Góð þátttaka um hátíðarnar

Helgihald og dagskrá um jólahátíðina 2022 var rík í Fossvogsprestakalli. Aftansöngur var í Bústaðakirkju og Grensáskirkju á aðfangadag klukkan 18 þar sem fjölmenni mætti í báðar kirkjurnar. Fyrr um daginn var hátíðarguðsþjónusta á vegum prestakallsins í Mörkinni. Einnig fór fram barna- og fjölskyldustund í Bústaðakirkju á aðfangadag klukkan 16. Og aðfangadeginum lauk síðan með miðnæturguðsþjónustu í Grensáskirkju klukkan 23:30. 

 

Jóladagur og annar dagur jóla

Hátíðarguðsþjónustur á jóladag fóru fram í Bústaðakirkju klukkan 13 og Grensáskirkju klukkan 14. 

Á öðrum degi jóla fór fram hátíðarguðsþjónusta í Grensáskirkju klukkan 14 á vegum Kirkju heyrnarlausra. 

 

Jólaball á þriðja degi jóla

Jólaball fór fram í Bústaðakirkju á þriðja degi jóla, þar sem Gluggagægir kíkti í heimsókn. Hann reyndar festi sig í ófærðinni og skilaði sér seint á ballið, sem kom ekki að sök. Stundin hófst inn í kirkju á söng og gleði. Svo var gengið í kringum jólatréð og sungið við undirleik Jónasar Þóris kantórs. Smákökur og veitingar voru í boði og þegar gestir höfðu gætt sér á kræsingunum, mætti sá rauðklæddi og gerði stormandi lukku. 

Jólasveinaspeki

Gluggagægir miðlaði mikilli jólasveinaspeki um reglusamt líferni, tannburstun og fleira. Hann notaði víst klósettburstann til að bursta tennurnar og makaði á hann drullu, þetta fannst honum virka vel. En krakkarnir kenndu honum farsælli siði og hvöttu hann til að kaupa sér tannbursta og tannkrem og nota hreint vatn. 

Nammi í poka

Eftir að hafa sungið öll jólalögin, gengið í kringum jólatréð, klappað og hlegið, fékk smáfólkið allt góðgæti í poka frá Gluggagægi. Hann þakkaði svo fyrir sig og óð út í ófærðina. 

Daníel Ágúst Gautason, djákni, tók myndir á jólaballinu. 

Gaman saman um áramótin

Framundan er helgihald í kirkjum prestakallsins um áramótin. Aftansöngur verður í Bústaðakirkju og Grensáskirkju á gamlársdag klukkan 18 og síðan verða hátíðarguðsþjónustur á nýársdag klukkan 13 í Bústaðakirkju og klukkan 14 í Grensáskirkju. 

Starfsfólk Fossvogsprestakalls þakkar þátttöku og samveru á árinu sem er að líða. Verið hjartanlega velkomin til kirkju um áramótin og á nýju ári. 

Við tökum jafnframt undir hvatningu SAMAN hópsins og hvetjum fjölskyldur til að hafa gaman saman um áramótin.

Gleðilega hátíð.