02
2024 maí

Jóhann Friðgeir Valdimarsson söng

Fjölmenni var í kvöldmessu í Bústaðakirkju sunnudagskvöldið 30. júlí sl. kl. 20. Jóhann Friðgeir Valdimarsson söng við undirleik Jónasar Þóris. Jóhann Friðgeir söng My way, Nessun Dorma, Í fjarlægð, Gloría og Kyrie. Einnig leiddi hann samsöng, þar sem sálmurinn Í bjúgri bæn var sunginn í almennum söng. Í upphafi var sunginn sálmurinn Ég trúi á ljós, við lagið Amazing Grace, en textinn var saminn af Ólafi Gauk fyrir Bústaðakirkju, á sínum tíma. 

Sálmur eftir Jónas Þóri frumfluttur

Jóhann Friðgeir frumflutti einnig sálminn Komin er nú kveðjustundin eftir Hjördísi Kristinsdóttur, við lag Jónasar Þóris. Sá fallegi sálmur er ekki í hinni nýju sálmabók þjóðkirkjunnar. En þau Hjördís og Jónas Þórir eiga annan sálm sem finna má í hinni nýju sálmabók, Þung er mín sorg og sár, númer 377.

Fjallræðan, lokaorðin lesin

Guðspjall dagsins var lesið úr Matteusarguðspjalli, lokaorð fjallræðunnar. Sá texti er hin fræga líking Jesú af mönnunum tveimur sem byggðu hús sín, annars vegar á bjargi og hins vegar á sandi. Séra Þorvaldur Víðisson flutti hugleiðingu og þjónaði fyrir altari ásamt messuþjónum. Hér er hann ásamt systur sinni rétt áður en kvöldmessan hófst.  

Þökkum ykkur öllum komuna og þátttökuna

Við þökkum ykkur öllum fyrir komuna og þátttökuna í kvöldmessunni. Guð veitir ykkur náð og blessun. 

Staðsetning / Sókn