27
2024 November

Biðjum fyrir Grindavík

Kolbeinn Tumason kvað í þriðja erindi sálmsins Heyr himnasmiður:

Gæt, mildingur, mín,

mest þurfum þín

helst hverja stund

á hölda grund.

Set, meyjar mögur,

máls efni fögur,

öll er hjálp af þér,

í hjarta mér. 

Kynslóðirnar sem gengið hafa á undan okkur hér á Íslandi báru til okkar þessa rúmlega átta hundruð ára gömlu bæn. Hún fékk nýja vængi við hið magnaða lag Þorkels Sigurbjörnssonar, eins og við þekkjum. Og þótt aldirnar skyldu þá Kolbein og Þorkel að, er líkt og Heilagur andi hafi saumað lag og texta saman. 

Nú þegar eldgos er hafið á ný á Reykjanesi, og nú við Grindavík, þá er bænin mikilvæg.

Við skulum sameinast í bæn fyrir Grindvíkingum. Sameinast í þeirri bæn að góður Guð bægi allri hættu frá, verndi íbúa og innviði og byggð í Grindavík og á Reykjanesi. 

Jesús segir í orðum sínum í Matteusarguðspjalli: "Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra."

Bænin er því máttug, hún veitir huggun í sorg, hún veitir ró þar sem óvissan ríkir, hún gefur ljós þar sem myrkur er, hún eflir félagsauðinn og kærleikann í samfélaginu. Tökum öll þátt í því að biðja fyrir Grindvíkingum á þessum hamfaratímum.