Katrín Jakobsdóttir flutti frábæra hátíðarræðu
Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra flutti frábæra hátíðarræðu á aðventukvöldi Bústaðakirkju, fyrsta sunnudag í aðventu sl., 1. desember kl. 17:00.
Barnakór Fossvogs söng dásamlega undir stjórn Valdísar Gregory. Það var mikill hátíðarbragur á barnakórnum. Við í Bústaðakirkju erum afskaplega ánægð með samstarfið við Tónskóla Reykjavíkur, en kórinn er starfræktur á þeirra vegum á vettvangi Bústaðakirkju.
Jónas Þórir stjórnaði allri tónlistinni á aðventuhátíðinni, en ásamt honum voru í hljómsveitinni Matthías Stefánsson á fiðlu og gítar, Stefán S. Stefánsson á sax og slagverk og Bjarni Sveinbjörnsson á bassa.
Kammerkór Bústaðakirkju söng. Einsöngvarar voru Bernadett Hegyi, Edda Austmann Harðardóttir, Gréta Hergils Valdimarsdóttir, Ívar Helgason, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Svava Kristín Ingólfsdóttir.
Þess má geta að á aðventuhátíðinni var frumflutt nýtt jólalag eftir Jónas Þóri.
Formaður sóknarnefndar Bústaðakirkju Þórður Mar Sigurðsson flutti ávarp þar sem hann reifaði hið fjölbreytta starf sem fram fer í Bústaðakirkju og þakkaði starfsfólki, sjálfboðaliðum, Kvenfélagi og öðrum dýrmæta og mikilvæga þjónustu á vettvangi kirkjunnar.
Hólmfríður Ólafsdóttir djákni las textann úr Jesaja spádómsbók um friðarhöfðingjann.
Séra Sigríður Kristín Helgadóttir leiddi stundina ásamt samstarfsprestum sínum.
Hér meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá deginum.
Barnakórinn var dásamlegur
Barnakórinn söng dásamlega í athöfninni og svo í lokin tók barnakórinn þátt í að syngja Heims um ból, með kertaljós í rökkvaðri kirkjunni.
Troðfull kirkja á aðventuhátíðinni
Bústaðakirkja var troðfull á aðventuhátíðinni. Það er löng hefð fyrir því að hátíðin sé afarvel sótt og var engin breyting á því að þessu sinni. Hvert sæti var setið og áhrifaríkt var að tendra á kertaljósum í lokin og syngja saman Heims um ból, við undirleik Jónasar Þóris.
Ljósberar að undirbúa hátíðina
Hér má sjá Jónu, Hólmfríði djákna, séra Bryndísi og Signýju undirbúa ljósin fyrir hátíðina. Það voru síðan fleiri hundruð ljósberar á aðventuhátíð Bústaðakirkju, þar sem ljósin voru tendruð í lok stundar.
Nemendur Tónskóla Reykjavíkur og 50 ára fermingarbörn í fjölskyldumessu um morguninn
Fyrr um daginn, eða klukkan 11 um morguninn, fór fram fjölskylduguðsþjónusta í Bústaðakirkju. Þar stigu á stokk nemendur úr Tónskóla Reykjavíkur með hljóðfæraleik og söng. Það voru þau Filip Sliczner og Lára Kristín Guðmundsdóttir sem léku á píanó og Eva Máney Ingibergsdóttir og Sara Lovísa Gunnarsdóttir sem sungu, við undirleik Auðar Guðjohnsen.
Á þessari mynd má sjá þær Evu Máney og Söru Lovísu syngja þemalagið úr myndinni Pocahontas.
Hópur sem hélt upp á 50 ára fermingarafmæli
Í fjölskyldumessu morgunsins var einnig afskaplega ánægjulegt að taka á móti hópi 50 ára fermingarbarna. Fulltrúi úr hópnum las ritningarlestur ásamt séra Þorvaldi og séra Bryndís Böðvarsdóttir flutti hugvekju.
Hér má sjá afmælishópinn, sem fagnar 50 ára fermingarafmæli þetta árið, en þau fermdust í Bústaðakirkju árið 1974.
...og svo ein 50 ára gömul mynd
Svo leyfum við einni 50 ára gamalli fermingarmynd að fylgja hér með. En þarna má sjá einn af fermingarhópum Bústaðakirkju árið 1974. Þekkið þið einhver af þeim sem mættu á afmælisárinu og eru á myndinni hér fyrir framan?
Vöfflunefndin stóð fyrir sínu
Að lokinni fjölskylduguðsþjónustu morgunsins bauð vöfflunefnd Bústaðakirkju til vöfflukaffis í safnaðarheimilinu. Það voru heilu stæðurnar af vöfflum sem biðu kirkjugesta.
Við þökkum vöfflunefndinni dygga þjónustu og trúmennsku á fyrsta sunnudegi í aðventu, en löng hefð er fyrir því að vöfflunefndin bjóði til vöfflukaffis að lokinni messu á kirkjudegi Bústaðakirkju, fyrsta sunnudegi í aðventu. Bústaðakirkja var vígð fyrsta sunnudag í aðventu árið 1971.
Við þökkum ykkur öllum fyrir samveruna á fyrsta sunnudegi í aðventu
Aðventuhátíð Bústaðakirkju er ávallt haldin á fyrsta sunnudegi í aðventu, því það er kirkjudagur Bústaðakirkju. Hún markar því upphaf aðventunnar.
Söngurinn og tónlistin öll var himnesk. Ávörp, ræður og lestrar hátíðleg og innihaldsrík.
Samfélagið gefandi og vinátta og kærleikur einkennandi. En það er einmitt það sem kirkjan stendur fyrir, þ.e. samfélag og kærleikur. Kærleikur manna á meðal, sem grundvallast á því undri að það sé kærleiksríkur Guð sem er til, kærleiksríkur Guð sem elskar heiminn og alla menn, og þar með mig og þig.
Guð gefi þér og þínum kærleiksríka aðventu.
Söfnumst einnig saman í kirkjunni okkar um jólin.
Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju á helgum hátíðum jóla.
Dagskráin á jólum og áramótum er hefðbundin, en hana má nálgast hér á síðunni næstu daga.
Við þökkum ykkur innilega fyrir samveruna í Bústaðakirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu.