Bænin og vernd Guðs
,,Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?" spyr sálmaskáldið og svarar síðan: ,,Hjálp mín kemur frá Drottni, skapar himins og jarðar."
Allur Davíðssálmur 121 verður lesinn í messunni í Grensáskirkju sunnudaginn 14. maí kl. 11 ásamt tveimur mikilvægum ritningarlestrum um bænina. Almennur bænadagur er haldinn í kirkjum landsins og eins og ávallt biðjum við fyrir landinu okkar, þeim sem taka ákvarðanir fyrir hönd okkar hinna, fyrir friði, starfi kirkjunnar og heimilunum í Fossvogsprestakalli. Þau sem skortir húsnæði, mat, atvinnu, félagsskap, gleði, góða heilsu og svo framvegis eru líka alltaf í bænum okkar.
Í tilefni mæðradagsins, sem haldinn er annan sunnudag í maí, biðjum við einnig sérstaklega fyrir mæðrum, einkum þeim sem mætt hafa erfiðleikum í tengslum við móðurhlutverkið.
Verum velkomin í messu á bæna- og mæðradegi þar sem sr. María og Ásta organisti þjóna ásamt messuhópi 3 og Kirkjukór Grensáskirkju.
Fjallið hér til vinstri er í Ísrael, skammt frá Dauðahafinu. Forsíðuna prýða Blönduhlíðarfjöllin, með Glóðafeyki í miðjunni, séð frá Löngumýri.