Ljúfar stundir

Kvöldmessur eru hvern sunnudag í Bústaðakirkju í sumar klukkan 20. Í kvöldmessunum er andrúmsloftið heimilislegt en heilagt, takturinn er aðeins annar en í hefðbundnu helgihaldi. Um er að ræða ljúfar stundir með einsöng eða dúett, hugleiðingu, bænagjörð og öllu því sem hefðbundnar guðsþjónustur skarta, en aðeins á lágstemmdari nótum. 

Una Dóra Þorbjörnsdóttir og Marteinn Snævarr Sigurðsson með dúett

Marteinn Snævarr Sigurðarson og Una Dóra Þorbjörnsdóttir, félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju, munu annast um tónlistina í kvöldmessu næsta sunnudags, 23. júlí kl. 20. Þau munu syngja dúett við undirleik Jónasar Þóris kantórs kirkjunnar sem stýrir tónlistinni.

Fyrr í sumar hafa aðrir félagar Kammerkórsins annast um tónlistina í kvöldmessunum og þannig skiptir kórinn með sér helgihaldinu í sumar. 

Una Dóra Þorbjörnsdóttir

Una Dóra Þorbjörnsdóttir syngur með Kammerkór Bústaðakirkju. Sunnudaginn 23. júlí mun hún annast um tónlistina í kvöldmessunni í Bústaðakirkju, ásamt Marteini Snævari Sigurðssyni. 

Marteinn Snævarr Sigurðsson

Marteinn Snævarr Sigurðsson syngur með Kammerkór Bústaðakirkju. Sunnudaginn 23. júlí mun hann annast um tónlistina í kvöldmessunni í Bústaðakirkju, ásamt Unu Dóru Þorbjörnsdóttur.  

Textar dagsins og þjónustan

Séra Þorvaldur Víðisson, sóknarprestur, annast um þjónustuna ásamt messuþjónum. Í lexíu dagsins, sem er 7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, biður spámaðurinn Jóel viðmælendur sína og áheyrendur að „óttast ekki“. Þetta er einn af rauðu þráðum Biblíunnar, þ.e. boðskapurinn til okkar um að við skulum ekki óttast. Spámaðurinn grundvallar þann boðskap sinn á þeirri sannfæringu að Guð vaki yfir, verndi og blessi. Jesús segir í guðspjalli dagsins: „Ég er brauð lífsins ... .“ Í þeim orðum sínum miðlar hann þeim sannleika að hann er nærri hverjum þeim sem til hans leitar og veitir saðningu, frið og blessun. 

Hjartanlega velkomin

Kvöldmessan í Bústaðakirkju er eina messa sunnudagsins í Fossvogsprestakalli, þar sem árleg sumarlokun er í gangi í Grensáskirkju, en hún stendur fram yfir Verslunarmannahelgi. 

Verið hjartanlega velkomin til helgihaldsins í Bústaðakirkju.