06
2024 November

Sigurbjörn Þorkelsson og Jóhann Helgason

Tónlistarmessa fór fram í Bústaðakirkju á konudaginn, sunnudaginn 19. febrúar kl. 13, þar sem yfirskriftin var lifi lífið. Það er einmitt yfirskriftin á verki þeirra félaga, Jóhanns Helgasonar tónlistarmanns og tónskálds og Sigurbjörns Þorkelssonar, ljóðskálds og rithöfundar. Sú plata kom út á sumardaginn fyrsta í fyrra og var sú nýsköpun á dagskrá í tónlistarmessu dagsins. 

Form helgihaldsins var óhefðbundið

Form helgihaldsins var óvenjulegt, því nær allir textar sem lesnir voru og sungnir, fyrir utan upphafsbæn, almenna kirkjubæn og blessunarorðin, voru eftir Sigurbjörn. Það hefur stundum verið sagt að einkenni á helgihaldi þjóðkirkjunnar sé einmitt útleggingin. Þ.e.a.s. við byggjum auðvitað starfið og helgihaldið á textum Biblíunnar, sem venjulega er lesið úr í guðsþjónustum safnaðanna. En í tónlistarmessu dagsins má segja að útleggingin/útskýringin/túlkunin hafi verið í fyrirrúmi því ekki var lesið beint úr Biblíunni, heldur voru textar Sigurbjörns notaðir, en þeir eru einmitt allir útlegging á hinu helga orði Biblíunnar.

Regína Ósk, Jóhann Helgason, Páll Rósinkranz ásamt Kammerkór Bústaðakirkju

Textarnir eru m.a. bænir um að Guð hjálpi okkur að meðtaka hinn milda kærleiksaga sem hinn ljúfi Jesús miðlar. Það má finna myndlíkingar um Guð sem bát, bíl, flugvél, hús, tjald og fleira. Það má finna bæn um að Guð taki okkur með til draumanna landa. Það er þarna trúarjátning um að Jesús sé Guð okkar. Í öðrum texta er staðhæfing um að við munum aldrei ganga ein, heldur mun Jesús vera okkur ljós á veg okkar. Eitt lagið er kvöldbæn. Svo var yfirskrift lokasálmsins Um að kenna, þar sem spurningar eru spurðar um hverjum illskan sé um að kenna. Þar er viðlagið lifi lífið, sem Sigurbjörn hefur orðið heimsfrægur fyrir á Íslandi, þ.e.a.s. fyrir það slagorð og þá bæn lifi lífið

Sigurbjörn Þorkelsson í prédikunarstól Bústaðakirkju

Forspil tónlistarmessunnar var lagið og bænin Með eld í sál, þar sem segir m.a. Tendra þú Drottinn ljós í minni sál. Kammerkór Bústaðakirkju söng og félagar úr Kammerkórnum sungu einsöng. 

Páll Rósinkranz og Regína Ósk sungu einnig einsöng, ásamt Jóhanni Helgasyni, sem jafnframt lék á gítar. Hljómsveitina skipuðu auk Jónasar Þóris og Jóhanns, Matthías Stefánsson á fiðlu og Bjarni Sveinbjörnsson á bassa. Séra Þorvaldur Víðisson leiddi stundina og þjónaði fyrir altari ásamt Guðrúnu Sigríði Jakobsdóttur messuþjóni. 

Sigurbjörn Þorkelsson prédikaði og er honum þakkað fyrir sín uppbyggilegu og góðu orð. 

Jafnframt er tónlistarfólkinu öllu þakkað fyrir stundina og Jóhanni Helgasyni sérstaklega fyrir sína yndislegu tónlist. 

Að lokinni tónlistarmessunni fengu allar konu rós við útganginn og boðið var upp á molakaffi í safnaðarheimilinu. 

Allar konur fengu rós

Að lokinni tónlistarmessunni fengu allar konur afhenda rós frá Bústaðakirkju, við útganginn, í tilefni konudagsins. Boðið var upp á molakaffi í safnaðarheimilinu að athöfn lokinni. 

Við þökkum ykkur öllum komuna sem sóttuð Bústaðakirkju heim á konudaginn. 

Verið ávallt hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju, kirkjur Fossvogsprestakalls. Dagskrá kirknanna má nálgast hér á síðunni, sem og á facebook síðum kirknanna og í dagblöðum. 

Myndirnar með þessari frétt eru fengnar af Facebook síðu Sigurbjörns Þorkelssonar.