Bjarni og Kristín sögðu frá
Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar komu saman í safnaðarheimili Grensáskirkju mánudaginn 30. janúar sl. Þar var dýrindis hádegisverður borinn fram og þátttakendur ræddu um leiðir til að styðja hið mikilvæga starf Hjálparstarfs kirkjunnar. Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri og Kristín Ólafsdóttir verkefnastjóri erlendra verkefna sögðu frá starfi Hjálparstarfsins. Þau kynntu sérstaklega starfið í Malaví, en þaðan eru þau nýkomin og höfðu því sjóðheitar upplýsingar af akri þjónustunnar.
Hjálparstarf kirkjunnar er í fararbroddi í starfi sínu hérlendis. Einnig er Hjálparstarf kirkjunnar í fararbroddi í starfi sínu erlendis, þar sem Hjálparstarfið er þátttakandi í verkefnum á vegum Lútherska heimssambandsins og Act Alliances.
Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar hafa nú komið saman þrisvar sinnum í safnaðarheimili Grensáskirkju til hádegisverðar.
Næsta samvera verður í safnaðarheimili Grensáskirkju mánudaginn 27. febrúar kl. 12:00. Áhugasamir geta bæst í hópinn en tilkynna þarf þátttöku eigi síðar en á hádegi fimmtudaginn 23. febrúar á netfangið help@help.is eða í síma 528 4400. Verð fyrir máltíðina er 2.000 kr. og mun afraksturinn renna til Hjálparstarfs kirkjunnar. Í eldhúsinu hafa verið þau Bent Pedersen og Kolbrún Guðjónsdóttir, sem hafa annast um eldamennskuna í sjálfboðaliðavinnu.
Verið hjartanlega velkomin. Tökum höndum saman og styðjum Hjálparstarf kirkjunnar í sínum mikilvægu störfum hérlendis og erlendis.