26
2024 maí

Barnakór Fossvogsskóla söng fyrir gesti

Kátur hópur eldri borgara frá Álftanesi, Bessastaðakirkju, heimsótti eldriborgara starf Fossvogsprestakalls í Bústaðakirkju í gær, miðvikudaginn 10. apríl. En síðasta haust fór hópur eldri borgara Grensáskirkju og Bústaðakirkju í heimsókn í Bessastaðakirkju og fékk góðar móttökur á Álftanesi. 

Barnakór Fossvogsskóla söng nokkur vel valin lög undir stjórn Bjargar Þórsdóttur tónmenntakennara. Ástvaldur Traustason organisti Bessastaðakirkju tók að sér að leika undir sönginn, en ekki hafði hann hitt hópinn áður né séð nótur eða lög. Allt var það hins vegar gert af eindæma fagmennsku og krakkarnir voru frábærir. 

Hólmfríður Ólafsdóttir djákni og séra Eva Björk Valdimarsdóttir sögðu frá kirkjunni og leiddu helgistund. 

Í framhaldinu var boðið til dagskrár í safnaðarheimili Bústaðakirkju. Þar var Sigurbjörg Þrastardóttir húsmóðir kirkjunnar búin að útbúa dýrindis veitingaborð og var gestum boðið í veislu. 

Kórinn Garðálfarnir frá Álftanesi sungu við undirleik og undir stjórn Ástvaldar Traustasonar, stórskemmtileg og fjölbreytt lög. Glatt var á hjalla og skemmtilegt andrúmsloft.

Vilborg Ólöf Sigurðardóttir djákni og séra Hans Guðberg Alfreðsson prestur á Álftanesi og prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi færðu eldriborgarastarfi Fossvogsprestakalls fallega bók að gjöf sem heitir: Bókin um gleðina, varanleg hamingja í breytilegum heimi. 

Við þökkum vinum okkar af Álftanesi fyrir komuna og hlökkum til að hitta þau aftur. 

Hér fyrir neðan eru fleiri myndir frá heimsókninni.

Garðálfarnir sungu

Kórinn Garðálfarnir frá Álftanesi sungu við undirleik Ástvaldar Traustasonar organista. 

Kaffiveitingar, spjall og gleði

Kaffiveitingar voru í boði í safnaðarheimilinu. 

Helgistund í Bústaðakirkju

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir og Hólmfríður Ólafsdóttir djákni sögðu frá Bústaðakirkju og leiddu helgistund. 

Ræður og samtal

Séra Þorvaldur Víðisson sagði nokkur orð í safnaðarheimilinu og þakkaði vinum okkar af Álftanesi fyrir þessa gleðiríku samveru, söng og skemmtun. 

Bogga sá um kaffið og dýrindis veitingar

Bogga sá um kaffið og Hófý hélt utan um dagskrána. 

Þökkum öllum fyrir samveruna í Bústaðakirkju og hlökkum til að hitta vini okkar af Álftanesi aftur.