
Eva Sól og Gréta Petrína útskrifuðust úr Leiðtogaskólanum
Því ber að fagna að sunnudaginn 4. maí 2025, voru þær Eva Sól Andrésdóttir og Gréta Petrína Zimsen útskrifaðar úr Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar í Grensáskirkju. Sr. Laufey Brá Jónsdóttir þjónaði fyrir altari.
Í guðþjónustunni tóku útskriftarnemarnir þátt í þjónustunni, lásu ritningarlestrana og bæði sömdu og fluttu hina almennu kirkjubæn. Þá lék Gréta Petrína einleik á fiðlu við undirleik Ástu Haraldsdóttur organista í Grensáskirkju.
Skólastjóri Leiðtogaskólans á höfðuborgarsvæðinu í vetur var Anna Elísabet Gestsdóttir, fyrrum Svæðisstjóri auk Guðrúnar Þóru Eggertsdóttur er starfaði þar í tímabundinni afleysingu.
Meðfram náminu í Leiðtogaskólanum hafa þær Eva Sól og Gréta Petrína starfað sem ung-leiðtogar í æskulýðsfélaginu Pony í Grensáskirkju í vetur. Það var því vel við hæfi að Sólveig Franklínsdóttir, æskulýðsfulltrúi Fossvogsprestakalls afhenti þeim útskriftarskjölin fyrir hönd Leiðtogaskólans.
Þetta var falleg og yndisleg stund og gaman að sjá gleðina og stoltið í augum leiðtoganna.
Þá fengu þær einnig að gjöf bókina um Jesú þar sem þær hafa möguleika á áframhaldandi fræðslu um Jesú Krist, umhverfi og menningu þess tíma þegar hann ferðaðist um landið og kenndi guðfræði.
Einnig fengu þær Faðir vorið innrammað og kvöldbænafjársjóðsöskju til að styðja við trúrækslu sína inn í hið daglega líf.
Þá afhenti Erik Pálssons, formaður sóknarnefndar Grensáskirkju þeim blómavönd í uppáhalds litunum þeirra, fyrir hönd prestakallsins.
Uppáhaldslitur Evu Sólar er blár og uppáhaldslitur Grétu Petrínu er fjólublár.
Eftir guðþjónustuna var hátíðlegt messukaffi með mæjó og rjóma og fólk gaf sér góðan tíma til að gleðjast með nýútskrifuðum leiðtogum, spjalla og gæða sér á góðum veitingum.
Við óskum Evu Sól Andrésdóttur og Grétu Petrínu Zimsen til hamingju með útskriftina úr Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar. Guð verndi þær í lífi og starfi.

Nýju leiðtogarnir með mæðrum sínum
Hér má sjá nýju leiðtogana ásamt mæðrum sínum.

Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi afhenti útskriftarskjölin
Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi afhenti útskriftarskjölin.

Leiðtogarnir lásu lexíu og pistil
Eva Sól og Gréta Petrína lásu ritningarlestra dagsins.

Gréta Petrína lék á fiðlu
Gréta Petrína lék á fiðlu, ásamt Ástu Haraldsdóttur organista, sem lék á flygil.

Gréta Petrína með blóm, útskriftarskjöl og gjafir
Gréta Petrína með blóm, útskriftarskjöl og gjafir.

Eva Sól með blóm, útskriftarskjöl og gjafir
Eva Sól með blóm, útskriftarskjöl og gjafir.
Við óskum nýju leiðtogunum innilega til hamingju með útskriftina úr Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar.
Við þökkum öllum fyrir samveruna í Grensáskirkju.