Barnakór TónGraf og TónFoss
Aðventuhátíð Bústaðakirkju er ávallt haldin fyrstu sunnudag í aðventu, sem er vígsludagur kirkjunnar. Fjölmenni var á hátíðinni sem var nú haldin án samkomutakmarkana, en veiran skæða hafði áhrif á þá dagskrá alla undanfarin ár, eins og aðra dagskrárliði kirkjunnar.
Krakkarnir í Barnakór TónGraf og TónFoss voru sannkallaðir gleðigjafir og sungu fjögur lög undir stjórn Eddu Austmann og Auðar Guðjohnsen, sem hefur samið fjölda laga fyrir kórinn. Kórinn söng Tendrum lítið ljós, Torgið ljómar, Jólin jólin allsstaðar og Komdu með jólin til mín. Jafnframt tók barnakórinn þátt í samsöng í lok stundarinnar þar sem allir sungu Heims um ból og tendrað var á kertaljósum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn flutti hátíðarræðu
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn flutti hátíðarræðu. Hann fjallaði meðal annars kærleikann og sanngirnina. Honum var ofarlega í huga aðstæður fólks á flótta og einnig ástandið í samfélaginu þar sem fréttir berast okkur af auknu ofbeldi. Víðir miðlaði af sinni góðu reynslu og hvatti okkur til dáða og vísaði m.a. í Gullnu regluna. Víðir varð landsþekktur á Íslandi í kórónuveirufaraldrinum árið 2020. Frasinn "Ég hlýði Víði" var útbreiddur þar sem samfélagið allt fór eftir góðum ráðleggingum þríeykisins svokallaða varðandi takmarkanir á samkomum, til að hefta útbreiðslu veirunnar. Víðir var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu heilbrigðismála þann 17. júní 2020. Við þökkum Víði innilega fyrir samveruna og sín góðu orð og hátíðarræðu.
Kammerkór Bústaðakirkju var frábær
Kammerkór Bústaðakirkju var frábær að venju og söng undir stjórn Jónasar Þóris kantórs. Kórinn söng í upphafi "Sjá himins opna hlið" við undirleik kantórsins á orgel og Eiríks Arnar Pálssonar á trompet. Jafnframt sungu þau Guðnasyrpu, sem kennd er við fyrrum organista Bústaðakirkju Guðna Þ. Guðmundsson heitinn, sem útsetti nokkur vel valin jólalög. Einnig sungu þau lítinn jólasálm eftir kantór kirkjunnar, Jónas Þóri. Að lokum leiddi kórinn samsöng "Heims um ból".
Hljómsveit hússins
Eiríkur Örn Pálsson, trompetleikari, Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari skipuðu hljómsveit hússins á aðventuhátíðinni, ásamt Jónasi Þóri kantór Bústaðakirkju.
Gréta Hergils Valdimarsdóttir sópran
Gréta Hergils Valdimarsdóttir sópran, söng Mille Cherobini in coro eftir Schubert. Heiti verksins gæti útlagst á okkar ylhýra "Þúsund englar í hjarta".
Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór
Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, söng lagið "Jólaljós". Textinn eftir séra Hjálmar Jónsson og lagið eftir Jónas Þóri, kantór Bústaðakirkju.
Tvísöngur
Edda Harðardóttir Austmann og Bernadette Hagyi sungu tvísöng, "O Salutaris Hostia" eftir Eriks Esenvalds. Kórinn tók undir og hljómsveitin lék undir stjórn Jónasar Þóris.
Heims um ból við kertaljós
Heims um ból var sungið, eftir að slökkt hafði verið á ljósunum í kirkjunni og kertaloginn borinn frá altarinu til allra kirkjugesta, kertin tendruð og allir sungu saman Heims um ból. Heilög stund.
Víðir Reynisson í ræðustól/prédikunarstól
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í ræðustól/prédikunarstól.
Spádómskertið tendrað á aðventukransinum
Ungur herra aðstoðar séra Evu Björk að tendra á fyrsta kerti aðventukransins, spádómskertinu.
Formaðurinn, Þorsteinn Ingi Víglundsson
Formaður sóknarnefndar Bústaðakirkju, Þorsteinn Ingi Víglundsson, flutti ávarp.
Þorsteinn Ingi og Auður
Hjónin Auður Björg Þorvarðardóttir og Þorsteinn Ingi Víglundsson, formaður sóknarnefndar Bústaðakirkju, við upphaf aðventuhátíðar Bústaðakirkju, fyrsta sunnudag í aðventu, 27. nóvember 2022.
Já, það var ástæða til að lyfta símunum
Barnakórinn söng dýrðlega undir stjórn Auðar Guðjohnsen og Eddu Austmann, við undirleik Jónasar Þóris og hljómsveitarinnar. Foreldrar, ömmur og afar og aðrir ættingjar ásamt kirkjugestum öllum, tóku upp farsímana til að taka myndir og taka upp sönginn.
Hólmfríður Ólafsdóttir djákni las
Hólmfríður Ólafsdóttir djákni las texta úr Jesaja spádómsbók um friðarhöfðingjann. Sá texti hefur verið túlkaður sem spádómur Jesaja um fæðingu Jesú Krists, en hluti hans hljóðar svo:
Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu eins og þegar uppskeru er fagnað, eins og menn fagna þegar herfangi er skipt. Því að ok þeirra, klafann á herðum þeirra, barefli þess sem kúgar þá hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans. Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar og verða eldsmatur. Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. (Jes. 9:1-6)
Prestarnir kátir
Prestar Fossvogsprestakalls, séra María G. Ágústsdóttir, séra Þorvaldur Víðisson og séra Eva Björk Valdimarsdóttir voru kát að lokinni vel heppnaðri aðventuhátíð.
Séra Eva Björk leiddi fyrri hluta stundarinnar. Séra Þorvaldur kynnti formann sóknarnefndar og bauð heiðursgest hátíðarinnar, Víði Reynisson, velkominn. Séra María G. Ágústsdóttir leiddi síðari hluta stundarinnar og stýrði ljósatendruninni í lokin.
Daníel Ágúst, djákni
Daníel Ágúst Gautason, djákni, annaðist um myndatöku á aðventuhátíðinni.