23
2024 júní

Hæfileikaríkir krakkar og öflugt starf

Skólahljómsveit Austurbæjar hélt tónleika í Grensáskirkju í morgun klukkan níu. Nemendum úr skólum hverfisins var sérstaklega boðið á tónleikana, ásamt kennurum sínum og starfsfólki skólanna. Efnisskrá var fjölbreytt og lék hljómsveitin fjörug og skemmtileg lög.

Eins fór fram kynning á þeim hljóðfærum sem leikið er á í hljómsveitinni. Þar er um að ræða gríðarlega fjölbreytta flóru af hljóðfærum og gaman var að sjá hve færir krakkarnir voru og hljómsveitin góð.

Tónleikagestir voru virkjaðir í sumum lögunum, með því að klappa og taka þátt með ýmsu móti. 

Tónlistarkennsla á vettvangi Skólahljómsveitar Austurbæjar er greinilega gríðarlega öflug. Þar virðist valinn maður í hverju rúmi við kennslu á hin ýmsu hljóðfæri. Tónlistarnám er mjög þroskandi og gefandi fyrir alla sem það stunda. Í starfi skólahljómsveitarinnar læra börnin einnig samstarf og að vinna með öðrum, hlusta og taka tillit. Útkoman er síðan gríðarlega skemmtilegur og öflugur samhljómur. Endilega kynnið ykkur starfið í Skólahljómsveit Austurbæjar, en nánari upplýsingar má finna á þessari slóð: Skólahljómsveit Austurbæjar (skolahljomsveitir.is).

Skólahljómsveitin mun halda sambærilega tónleika í Bústaðakirkju á morgun, föstudaginn 5. maí kl. 9.

Við þökkum Skólahljómsveit Austurbæjar innilega fyrir komuna í kirkjur Fossvogsprestakalls, Bústaðakirkju og Grensáskirkju. 

Myndin hér til hliðar er tekin í Grensáskirkju í morgun, fimmtudaginn 4. maí 2023.