02
2024 November

Jónas Þórir á hammondinu

Listahátíð barnanna fór fram í Bústaðakirkju sunnudaginn 30. október sl. kl. 11. Rúmlega 230 manns mættu í barnamessu dagsins, þar sem börn úr barnakór TónGraf og TónFoss mættu með stjórnendum sínum Eddu Austmann og Auði Guðjónsen og sungu dýrðleg lög fyrir þéttsetna kirkju. Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi leiddi stundina ásamt séra Þorvaldi Víðissyni, Katrínu Eir Óðinsdóttur og Jónasi Þóri sem einnig lék undir söng barnakórsins. Biblíufræðsla dagsins fjallaði um verndarengla og mikilvægi þess að við komum vel fram hvert við annað. Við höfum öll hlutverk í því að koma í veg fyrir einelti og annað ofbeldi í okkar nærumhverfi. Við getum verið verndarenglar hvers annars í því sambandi. 

Að lokinni barnamessu var boðið upp á ávaxtastund í safnaðarheimilinu, kaffi og djús, þar sem börn og foreldrar/forráðamenn fengu tækifæri til að spjalla og leika. Þar voru einnig útbúnir geislabaugar sem þátttakendur fengu á höfuðin og englar voru málaðir með fingramálningu, eitt stórt sameiginlegt listaverk, á risastórt blað, undir handleiðslu Sólveigar Franklínsdóttur æskulýðsfulltrúa.

 

 

Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi

Sólveig Franklínsdóttir leiðir stundina ásamt Katrínu Eir og séra Þorvaldi.

Ljósatendrun

Fulltrúi ungu kynslóðarinnar kveikir á altariskertunum undir styrkri leiðsögn Katrínar Eirar. Þegar kveikt er á fyrra kertinu segjum við: Fyrir Guð. Þegar seinna kertið er tendrað segjum við: Fyrir náungann. Á meðan á ljósatendruninni stendur syngjum við: Ég er heimsins ljós.

Edda Austmann stjórnandi barnakórsins

Edda Austmann annar stjórnenda barnakórsins, kynnir hér kórinn, sem söng svo fallega í barnamessunni. 

Auður Guðjónsen kórstjóri

Kórinn söng stórskemmtileg lög eftir stjórnanda sinn, Auði Guðjónsen. Ýmsar hreyfingar og skemmtilegheit fylgja þeirri frábæru tónlist. 

Elska Jesú er svo breið

Sunnudagaskólalögin voru sungin, eins og Elska Jesú er svo dásamleg... hún er svo breið, með viðeigandi handahreyfingum. 

Myndirnar með þessar frétt voru teknar af Iwonu Bergiel. Við þökkum henni innilega fyrir að fá að nýta hennar fallegu myndir á heimasíðu kirkjunnar. 

Staðsetning / Sókn