25
2024 November

Reynslusögur barna á Gaza í flutningi ungmenna í Bústaðakirkju

Raddir barna á Gaza verða á dagskránni í Bústaðakirkju næstkomandi sunnudag 25. febrúar klukkan 13:00. 

Unicef hefur safnað saman og birt reynslusögur barna frá Gaza og mun séra Daníel Ágúst Gautason æskulýðsprestur miðla völdum reynslusögum í prédikun sinni í helgihaldi dagsins í Bústaðakirkju. Leiðtogar úr æskulýðsstarfi Fossvogsprestakalls munu jafnframt ljá þeim raddir sínar, ásamt séra Daníel Ágústi. 

Þeir sem líða helst í stríði eru þeir sem síst skyldi, börnin og aðrir í viðkvæmri stöðu, hvort sem það er í Úkraínu, á Gaza eða hvar sem ófriður ríkir. 

Nauðsynlegt er að hlusta á reynslu þeirra sem líða, reynslu barnanna, að samfélagið og heimurinn allur heyri raddir barnanna. 

Guðspjallatexti þessa sunnudags fjallar síðan um bænina. 

Jesús miðlar þeim djúpa sannleika í frásögn sunnudagsins að stundum er bænin eini farvegurinn sem við höfum gagnvart raunum mannlífsins.

Kirkjan er vettvangur þess að við komum saman, berum hvert annað á bænarörmum, biðjum fyrir friði í heiminum, biðjum fyrir friði á Gaza, biðjum fyrir börnunum á Gaza að þeim verði bjargað, að þau muni eiga sér farsæla framtíð.  

Til viðbótar við allt hitt sem við gerum og leggjum að mörkum til góðs fyrir mann og heim, líf og framtíð, er mikilvægt að sameina kraftana í bæn. Biðja algóðan Guð um frið, því með samstilltu bænaátaki geta kraftaverkin gerst. 

(Myndin með fréttinni er af vefsíðunni Daily Sabah)