26
2025 August

Séra Sigríður Kristín og séra Laufey Brá settar í embætti

Sunnudaginn 24. ágúst sl. var stórhátíð í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Fermingarbörn og foreldrar voru sérstaklega boðin velkomin til helgihalds í Grensáskirkju kl. 11 og/eða í Bústaðakirkju kl. 20. Tilefnið var að fermingarstörfin hófust með fermingarnámskeiði dagana 18.-20. ágúst sl. Í kjölfar helgihaldsins í báðum kirkjum voru haldnir upplýsingafundir með foreldrum fermingarbarna. Þakkarefni er hve vel fermingarbörn og foreldrar mættu til helgihaldsins og fundarins. 

Séra Guðbjörg Jóhannesdóttir prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra tók þátt í helgihaldinu í báðum kirkjum. Hún bar söfnuðunum kveðju biskups Íslands og setti nýja presta safnaðanna, séra Sigríði Kristínu Helgadóttur og séra Laufeyju Brá Jónsdóttur formlega inn í prestsembætti við söfnuðina. 

Kirkjukór Grensáskirkju söng undir stjórn Ástu Haraldsdóttur organista og Kammerkór Bústaðakirkju söng undir stjórn Jónasar Þóris organista. Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Gréta Hergils Valdimarsdóttir sungu einsöng. Þóra Fanney Hreiðarsdóttir söng einsöng. Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi og séra Þorvaldur Víðisson þjónuðu einnig í helgihaldinu, ásamt messuþjónum og kirkjuvörðum. 

Sóknarnefndir kirknanna buðu upp á veitingar í kjölfar helgihaldsins og upplýsingafundanna. 

Við þökkum öllum fyrir þátttökuna og óskum söfnuðunum innilega til hamingju. 

Myndin með fréttinni er fengin af Facebook síðu Reykjavíkurprófastsdæmis vestra.