07
2024 November

Byggjum upp nærumhverfið

Söfnuðir þjóðkirkjunnar eru sjálfstæðar þjónustueiningar sem standa fyrir kirkjulegu og menningarlegu starfi í nærumhverfinu, á hverjum stað. 

Í Bústaðakirkju fara fram foreldramorgnar alla fimmtudaga, barnamessur alla sunnudaga, eldri borgarastarf alla miðvikudaga, prjónakaffi, karlakaffi, kvenfélagsstörf, AA fundir, auk alls hins hefðbundna helgihalds og þjónustu. Svo voru hádegistónleikar alla miðvikudaga í glæsilegri dagskrá í Bleikum október í Bústaðakirkju, svo eitthvað sé nefnt. Í Grensáskirkju er prjónakaffi á fimmtudögum, kyrrðarstund í hádeginu á þriðjudögum og kyrrðarbænastund á fimmtudagskvöldum, æskulýðsfélagið Poný öll þriðjudagskvöld, kirkjuprakkarar og TTT, 12 spora starf Vina í bata, að ótöldu reglulegu helgihaldi, sálgæslu, fyrirbænum, líknarþjónustu og athöfnum hverskonar alla daga vikunnar. 

Kirkjan í hverfinu þínu er rekin fyrir sóknargjöld. Það skiptir reksturinn máli hvort þú sért skráð(ur) í þjóðkirkjuna. Ef þú ert skráð(ur) í þjóðkirkjuna nýtur sóknin þín, þar sem þú býrð, sóknargjalda, sem greidd eru úr ríkissjóði. Sóknargjöldin eru tæplega kr. 1.200.- á mánuði fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri. Sért þú ekki skráður í þjóðkirkjuna eða einhvern annan söfnuð, heldur ríkisvaldið þeim fjármunum eftir í ríkissjóði og ráðstafar í annað. Sóknarnefndir eru síðan mannaðar sjálfboðaliðum sem annast um rekstur starfseminnar í sjálfboðinni þjónustu. Það er mikið þakkarefni að öflugt fólk skuli gefa kirkjunni sinni þannig af tíma sínum. 

Með skráningu í þjóðkirkjuna styðjum við því trúarlegt og menningarlegt starf í nærumhverfi okkar. Með skráningu í þjóðkirkjuna eflir þú möguleika kirkjunnar þinnar til að standa fyrir faglegu kirkju- og menningarstarfi og eflir þannig félagsauðinn í hverfinu þínu. 

Hér getur þú kannað hvort þú sért skráð(ur) í þjóðkirkjuna. Ef þú ert ekki skráð(ur), þá er einfalt að kippa því í liðinn. Verið hjartanlega velkomin í þjóðkirkjuna. 

Við þökkum öllum sem skráð eru og taka þátt með okkur í hinu kirkjulega- og menningarlega starfi í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.