25
2024 April

Listin sameinar

Nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla, undir handleiðslu kennara sinna, efndu til myndlistarsýningar í safnaðarheimili Grensáskirkju. Sýningin stóð frá 31. mars til 17. maí sl. 

Verk nemendanna hafa verið til mikillar prýði í safnaðarheimili Grensáskirkju undanfarnar vikurnar. Verkin eru listafólkinu og kennurum þeirra góður vitnisburður.  Fjölmargir komu í safnaðarheimili Grensáskirkju á þessum tíma og nutu sýningarinnar.

Við sýningarlok kom hluti nemanna saman ásamt kennurum sínum í safnaðarheimili Grensáskirkju og tóku niður verkin og var þeim þakkað innilega fyrir samstarfið í vetur. 

Fjölbrautarskólinn við Ármúla og Grensáskirkja efndu í upphafi árs til þessa samstarfs um táknin í kirkjunni, myndlist og myndlistarsýningu. Grensáskirkju prýða glerlistaverk eftir okkar helsta listamann á því sviði, Leif Breiðfjörð.

Glerlistaverk Leifs eru rík af táknum og litum. Kennarar við listadeild Fjölbrautarskólans við Ármúla heimsóttu Grensáskirkju í vetur þar sem starfsfólk Grensáskirkju tók á móti hópnum ásamt Leifi Breiðfjörð og Sigríði Jóhannsdóttur. Leifur og Sigríður fjölluðu um gluggana, aðdragandann að gerð þeirra, framkvæmdina, uppsetninguna og þau tákn sem gluggana prýða.

Einnig heimsótti séra Þorvaldur Víðisson kennara og nemendahóp í Fjölbrautarskólanum við Ármúla í vetur þar sem hann kynnti jafnframt táknin sem finna má í Grensáskirkju. 

Grensáskirkja er rík af táknum og því heppileg til slíkrar kennslu og miðlunar. Það er síðan einhvern vegin þannig að listin sameinar og segir meira en þúsund orð. 

Umfjöllun um samstarfið má einnig finna á heimasíðu Fjölbrautarskólans við Ármúla, sjá hér: Myndlistarsýning nemenda FÁ í safnaðarheimili Grensáskirkju | Fréttir | Fjölbrautaskólinn við Ármúla (fa.is) 

 

Eitt verk verður áfram í Grensáskirkju

Sú hugmynd kviknaði á vettvangi Grensáskirkju hvort mögulegt væri að eignast eitt verkið á sýningunni. Þá vandaðist málið því fjölmörg verk á sýningunni komu þar til greina. 

Niðurstaðan varð hins vegar sú að verk þeirra Bjarts Rögnvaldssonar, Gabrielu Gotthardt og Kristinu Saliu varð fyrir valinu. Verkið verður nú innrammað og mun síðan prýða safnaðarheimilið. Mynd af þeim Gabrielu og Kristinu við verkið má sjá hér, en Bjartur var fjarri góðu gamni við sýningarlokin. 

Við þökkum nemendum og kennurum Fjölbrautarskólans við Ármúla afskaplega gefandi og skemmtilegt samstarf í vetur.