18
2024 April

Kvöldmessur og einsöngur í hverri viku

Kirkjustarfið í Fossvogsprestakalli er nú komið í vor- og sumargírinn. Barna- og æskulýðsstarfið, eldri borgarastarfið, foreldramorgnarnir, kirkjuprakkararnir, TTT, æskulýðsfélagið Pony, prjónaklúbburinn, Kvenfélagið, barnakórinn og þannig mætti áfram telja, eru nú komin í sumarfrí. 

Í Bústaðakirkju verður boðið upp á kvöldmessur í sumar, öll sunnudagskvöld kl. 20:00. Í kvöldmessunum er andrúmsloftið lágstemmt en heilagt. Ljúfar stundir með einsöng, hugleiðingu, bænagjörð og öllu því sem hefðbundnar guðsþjónustur skarta. Nýbreytnin nú verður hins vegar sú að í hverri kvöldmessu verður einsöngur. 

Anna Klara Georgsdóttir söngkona

Félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju munu syngja einsöng í kvöldmessunum í Bústaðakirkju í sumar. Kórfélagarnir munu skipta með sér sunnudögunum í sumar og koma fram eitt og eitt, við undirleik Jónasar Þóris organista. 

Anna Klara Georgsdóttir söngkona mun ríða á vaðið núna um helgina, sunnudaginn 4. júní kl. 20. Auk einsöngsins mun Anna Klara leiða almennan safnaðarsöng. 

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir flytur hugvekju og leiðir stundina á sunnudaginn ásamt messuþjónum. 

Félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju munu á þennan máta leiða tónlistina í kvöldmessunum í sumar, ásamt Jónasi Þóri kantor. 

Endilega fylgist með og takið þátt.  

Verið hjartanlega velkomin

Í Fossvogsprestakalli verður sunnudagshelgihaldið því á tveimur tímum í sumar. Annars vegar í Grensáskirkju klukkan 11 og hins vegar í Bústaðakirkju að kvöldi kl. 20.

Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í helgihaldinu.