04
2023 October

Skynfærin virkjuð, sjón, snerting, hljóð

Foreldramorgnar fara fram í Bústaðakirkju alla fimmtudaga kl. 10-12. Umsjón með foreldramorgnunum hefur Ragnheiður Bjarnadóttir tónlistarkennari. Dagskráin í vetur hefur verið fjölbreytt og ýmsir gestir komið og frætt foreldra og forráðamenn um ýmislegt gagnlegt. 

Á foreldramorgnunum er yfirleitt heilmikið sungið með börnunum. En fimmtudaginn 11. maí sl. var dagskrá sem bar yfirskriftina "Krílasálmar". 

Jónas Þórir lék á flygil og Ragnheiður leiddi dagskrána inn í kirkju þar sem skynfæri barnanna voru virkjuð og dagskráin fjölbreytt og litrík. 

Stundin hófst á því að blævængur var látinn "fljúga" yfir hópinn, við undirleik Jónasar Þóris og athygli barnanna var þar strax gripin, eins og sést á myndinni. 

Tónar flygilsins ómuðu um allan líkamann

Börnin fengu, með aðstoð foreldra sinna og forráðamanna, að setjast upp á flygilinn. Þar var sungið skemmtilegt hreyfilag um leið og tónar flygilsins ómuðu um líkamann. 

Boltar og litir

Svo var sest á stóla í hring og börnin í fangi hinna fullorðnu. Þá voru litríkir boltar látnir skoppa á dúk sem allir héldu í og regnbogalagið sungið, ásamt fleiri skemmtilegum lögum. Farið var í fleiri leiki með dúkinn, þar sem mikið var skríkt og hlegið. 

Sullað í skírnarfontinum

Gaman þótti börnunum jafnframt að fá að sulla í skírnarfontinum. Alltaf voru nýir og nýir sálmar sungnir og viðeigandi lög, um leið og farið var í leiki og skynfæri barnanna virkjuð á margvíslegan mátan. 

Því næst var sest á gólfið og sungið m.a. "Upp, upp, upp á fjall" og börnin fengu þar góða þjónustu hinna fullorðnu og skemmtu sér vel. Eins þegar dansað var við undirleik og söng, þar sem þau dönsuðu hvert við annað.

Við þökkum öllum sem tóku þátt og bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju.