25
2025 maí

Kór Skaftfellinga í Grensáskirkju

Kirkjur Fossvogsprestakalls iða af lífi, bæði Bústaðakirkja og Grensáskirkja. 

Yfir vetrartímann er dagskráin fjölbreytt, með barnamessur, æskulýðsfélag, kirkjuprakkara, eldri borgarastarf, karlakaffi, prjónakaffi, kyrrðarbænastundir, fyrirbænastundir, skírnir, útfarir, fermingar, hjónavígslur, messur og guðsþjónustur, svo eitthvað sé nefnt. 

Dagskráin er rík og þátttaka margra gerir að verkum að starfið er blómlegt. Sjálfboðaliðar bera uppi messuþjónustuna ásamt kórum, organistum, djákna og prestum. Æskulýðsfulltrúi leiðir blómlegt barna- og æskulýðsstarf, leiðtogar leiða barnamessur, kirkjuverðir halda utan um þjónustuna í kirkjum og safnaðarheimilum. 

Sóknarnefndir standa styrkum fótum að baki starfinu öllu, sem er ómetanlegt. 

Þegar vetur hopar og fer að vora, fá ýmsir hópar að halda tónleika í kirkjum prestakallsins. 

Skólahljómsveit Austurbæjar hélt sína tónleika í vor í báðum kirkjum prestakallsins, þar sem börnum úr grunnskólum hverfanna var sérstaklega boðið. Um var að ræða dásamlega tónleika, þar sem börn á aldrinum 6-9 ára fengu jafnframt kynningu á hinum ýmsu hljóðfærum. Tónlistarskólar halda sína vortónleika í kirkjunum og ýmsir fleiri aðilar sækja hingað með sína stórviðburði. 

Kórar halda tónleika. Til dæmis hélt Kór Skaftfellinga tónleika í Grensáskirkju í maí. Myndin sem fylgir þessarsi umfjöllun er einmitt frá þeim tónleikum. 

Bústaðakirkja og Grensáskirkja vilja vera sem opinn faðmur fyrir sóknarbörnin og alla sem hingað vilja leita. 

Yfir sumartímann fer reglulegt sunnudagshelgihald fram kl. 20 í Bústaðakirkju og kl. 11 í Grensáskirkju. Prestar prestakallsins eru einnig ávallt til samtals og sálgæslu. 

Verið hjartanlega velkomin til helgihaldsins í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.