Landsmót ÆSKÞ á Egilsstöðum
Um helgina fór hress hópur frá Fossvogsprestakalli á Landsmót ÆSKÞ, Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, á Egilsstöðum. Landsmót er gríðarlega skemmtilegt og vinsælt mót fyrir unglinga í æskulýðsstarfi, og er einn af fjölmennustu viðburðum þjóðkirkjunnar. Ungmenni víðsvegar af landinu komu á mótið, en rúmlega 200 manns tóku þátt. Frá Æskulýðsfélaginu Pony í Fossvogsprestakalli fóru 16 ungmenni og þrír leiðtogar.
Heilmikið ferðalag
Brottför var frá Bústaðakirkju kl. 8:30 á föstudagsmorgun, enda tók við rúmlega tíu tíma rútuferð þvert yfir landið. Góð stemning var í rútunni, enda voru öll spennt yfir því að komast á áfangastað. Við mætingu var haldið beint í kvöldmat og svo var kvöldvaka og mótssetning í Egilsstaðakirkju. Hópurinn gisti í grunnskólanum á Egilsstöðum og kom sér vel fyrir þar.
Messy Church
Boðið var upp á fulla dagskrá á laugardeginum, sem byrjaði á Messy Church. Messy Church er einskonar flæðandi stöðvamessa þar sem þátttakendur mótsins fengu að upplifa sköpunarsöguna á mismunandi hátt. Sjaldan hefur kirkja verið jafn litrík, lifandi og skemmtilega subbuleg.
Fjölbreytt dagskrá
Dagskrá mótsins var fjölbreytt, en boðið var upp á viðamikið hópastarf um miðjan dag. Karíókí, spil, leikir, vinabönd, varúlfur, Just Dance, útivera, piparkökuskreyting og sund var meðal þess sem boðið var upp á. Vert er að taka fram að leiðtogarnir Danni og Sóley algjörlega rokkuðu í karíókí.
Eftir hópastarf var hæfileikakeppni, þar sem æskulýðsfélögin fá að láta ljós sín skína. Atriði Pony var alveg geggjaður dans sem að eitt af hæfileikabúntunum okkar framkvæmdi af mikilli snilld. Um kvöldið var svo kvöldvaka, ball og helgistund. Sunnudagurinn einkenndist af tiltekt og ferðalagi aftur suður. Sem betur fer fórum við í messu þar á milli og fengum dásamlega farandblessun frá þeim prestur, djáknum og leiðtogum sem að stóðu vaktina á mótinu.
Hlökkum til næsta árs
Landsmót ÆSKÞ 2023 var einstaklega vel heppnað og á mótsnefndin hrós skilið. Þau sem sitja nefndina gefa mikið af tíma sínum og vinnu til að gera mótið sem best fyrir alla. Þakklæti er okkur ofarlega í huga eftir svona dásamlega og gefandi ferð. Við hlökkum til að mæta á Landsmót 2024.
Hægt er að skoða fleiri myndir af mótinu á Instagram-síðu okkar: Fossvogsprestakall
Ljóðræn lýsing á skemmtilegu móti
Sr. Magnús Magnússon, prestur á Hvammstanga, orti lítið kver á leiðinni heim um vel heppnað og skemmtilegt mót. Það er ort við lagboðann "Fyrr var oft í koti kátt."
Á Egilsstöðum undum sátt
æskan lék sér saman
þar löngum helgið hátt
hent að mörgu gaman.
Sköpun heimsins skýrð út þar
skondnar sagðar sögur
fjölbreytninni fagnað var
framhjá streymdi Lögur.
Margt eitt kvöld og margan dag
mættum við í fæði
síðan sungum ljúflingslag
saman öll í næði.
Landsmótsnefnd og lýður kær
ljúft þið glödduð krakka.
Bella, Solla; báðar tvær
best má ykkur þakka.
-Sr. Magnús Magnússon, 2023.
Þakkarbæn við lok móts
Elsku Guð.
Takk.
Takk fyrir Landsmótið. Takk fyrir hvað það var skemmtilegt og gefandi.
Takk fyrir Landsmótsnefndin sem að gaf tíma sinn og mikla vinnu til að gera mótið sem best.
Takk fyrir alla sem að mættu á mótið. Takk fyrir nýja vináttu sem að myndaðist og gamla vináttu sem að styrktist.
Takk fyrir að við komumst öll heil heim og fyrir rútubílstjórana sem að keyrðu okkur.
Takk fyrir minningarnar um helgina sem að munu fylgja okkur það sem eftir er.
Takk fyrir að þú ert alltaf með okkur, að þú vakir yfir okkur og elskar okkur.
Elsku Guð.
Takk.
Amen.