13
2024 September

Fleiri alltaf velkomnir til þátttöku í messuþjónustunni

Helgihald kirkjunnar stendur öllum opið. Stundum er helgihaldið fjölmennt og stundum fámennt. Á stórhátíðum eru kirkjurnar gjarnan fullar og einnig þegar tímamót eru í fjölskyldunum, ungmenni að fermast, brúðhjón að ganga í það heilaga, barn er borið til skírnar eða þegar við fylgjum samferðarfólki okkar hinsta spölin, er útför fer fram. Ekki skyldum við vanmeta mikilvægi þess að sýna umhyggju og samhygð, þegar samferðarfólk okkar gengur í gegnum sorg, því þar getum við öll lagt hvert öðru lið með hlýju og umhyggju. 

Í Fossvogsprestakalli erum við lánsöm með fólk í hinum ýmsu trúnaðarstörfum. Sumir eru í launuðum störfum hjá söfnuðunum, aðrir í launuðum störfum á vegum biskups Íslands. 

Svo eru fjölmargir í sjálfboðinni þjónustu, til dæmis fólk í sóknarnefndum, sem veitir starfinu sterkt og ómetanlegt bakland. Svo eru það hinir fjölmörgu sem taka þátt í messuþjónustu í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Messuþjónahópar eru starfandi við báðar kirkjurnar. Hlutverk messuþjónanna er að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd helgihaldsins. Sumir lesa texta og bænir, aðstoða við útdeilingu, aðrir sinna móttöku kirkjugesta, huga að messukaffinu og öðru sem þarf til að auka á gestrisni kirkjunnar. 

Það er nefnilega það sem messuþjónarnir gera fyrst og fremst, það er að auka á gestrisnina. Messuþjónarnir taka á móti kirkjugestum og hjálpa til við að allt sé eins og best verður á kosið í þjónustu kirkjunnar. 

Við skipulag messuþjónustunnar er lagt upp með að í hverjum hópi séu 4-5 einstaklingar. Hver hópur hefur síðan skyldum að gegna á fimm vikna fresti. Með því móti dreifist ábyrgð á álag á fleiri herðar. 

Alltaf er pláss fyrir nýja aðila til þátttöku í messuhópum Grensáskirkju og Bústaðakirkju. Ef þið hafið áhuga, endilega hafið samband við prestana. 

Full mæting hjá hópi tvö í Grensáskirkju

Síðasta sunnudag var það einmitt messuhópur 2 sem var við þjónustu í Grensáskirkju, en í honum eru Arnþór Óli Arason, Bergþóra Laufdal, Signý Gunnarsdóttir og Guðrún Egilson. Hér má sjá mynd af þeim, að loknu helgihaldinu.