Einsöngur, nýsköpun og prédikun í bundnu máli
Níuviknafastan í Bústaðakirkju hófst á messu sunnudaginn 5. febrúar sl. kl. 13 þar sem séra Hjálmar Jónsson fv. dómkirkjuprestur og alþingismaður prédikaði. Skorað hafði verið á hann að prédika sem mest í bundnu máli, sem hann og gerði.
Sálmarnir og tónlistin
Í nýrri sálmabók íslensku kirkjunnar sem kom út í lok síðasta árs, eru þrír sálmar eftir séra Hjálmar. Einn þeirra er við lag Jónasar Þóris kantórs Bústaðakirkju. Sálmarnir eru eftirfarandi: Þú sem líf af lífi gefur, Á dimmri nóttu bárust boð og Nú leikur blær um lífsins vor. Síðastnefndi sálmurinn er við lag Marteins H. Friðrikssonar, heitins, fyrrum dómorganista. Sálmarnir voru allir fluttir í helgihaldi sunnudagsins og fleiri textar og lög séra Hjálmars og Jónasar Þóris.
Einsöngur
Félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju sungu undir stjórn Jónasar Þóris kantórs. Eiríkur Hreinn Helgason, Sæberg Sigurðsson og Marteinn Snævarr Sigurðsson sungu einsöng.
Fjölmenni
Fjölmenni var í messunni þar sem Jónas Þórir kynnti þau tilefni sem urðu til þess að þeir vinirnir fóru að yrkja og semja saman, en það hafa þeir nú gert í áratugi.
Altarisganga og fermingarbörn
Gengið var til altaris og voru fermingarbörn og fjölskyldur þeirra sérstaklega boðin velkomin til þátttöku, en nú fer að styttast í fyrstu fermingar vorsins.
Prédikun í bundnu máli
Guðspjallatexti dagsins fjallaði um talenturnar, texti Jesú úr 25. kafla Matteusarguðspjalls vers 14-30. Séra Hjálmar hóf prédikun sína í bundnu máli og má sjá upphaf hennar hér fyrir neðan:
Upphaf prédikunar séra Hjálmars í Bústaðakirkju 5. febrúar 2023
Bústaðakirkju með brag
best er að heilsa í dag.
Hér er söngvarasveit
og sálin er heit
í kantor sem kann sitt fag.
Þú kominn ert kirkjunnar til
með kórsöng og orgelspil
og klerka í stuði
með kærleikans Guði,
það er yndislegt allt, hér um bil.
Söfnuðinn sannlega þekkjum
er situr á kirkjunnar bekkjum.
Vel er hér mætt
og margt verður rætt
áður en aftur heim strekkjum.
Kantorsins kynning er traust
og klerkurinn tónar við raust.
Miskunn og mildi
eru mest lofuð gildi
og málið er bundið og laust.
Einkum er innihald bragsins
efnið í guðspjalli dagsins.
Þar er talentan þín
og talentan mín
sem við fengum til lífsferðalagsins.
Þú fékkst heilmikla hæfileika,
þú átt hliðina sterka – og veika.
Styrktu hið besta,
stöðva þitt versta
og þá muntu réttlættur reika.
Teldu nú talentur þínar,
við þá talningu óðar þér hlýnar.
Þú ert máttug og sterk,
þú ert meistaraverk
með eigindir allar svo fínar.
Þakkir
Við þökkum séra Hjálmari kveðskapinn, prédikunina og samfélagið, sem og ykkur öllum sem mættuð.
Verið Guði falin og verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju.