Fengum kynningu á starfsemi Ljóssins
Fulltrúar Bústaðakirkju og Kvenfélags Bústaðasóknar heimsóttu Ljósið, endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda, föstudaginn 14. nóvember sl. Þar afhentu fulltrúar safnaðarins og kvenfélagsins, Ernu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Ljóssins fjárframlag sem var afrakstur Bleiks október í Bústaðakirkju.
Jónas Þórir organisti Bústaðakirkju hafði veg og vanda að dagskránni í Bleikum október í Bústaðakirkju, eins og undanfarin 15 ár. Haldnir voru hádegistónleikar alla miðvikudaga í október, þar sem félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju sungu ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur (Diddú), Bjarna Atlasyni, Bjarna Arasyni og hljóðfæraleikurunum Hjörleifi Valssyni, Birni Thoroddsen, Bjarna Sveinbjörnssyni og Matthíasi Stefánssyni.
Ókeypis aðgangur var á tónleikana en tónleikagestum var boðið að styðja Ljósið með fjárframlagi og/eða kaupa bleiku slaufu Krabbameinsfélagsins. Alls söfnuðust kr. 800.000.- til Ljóssins með framlagi Kvenfélags Bústaðasóknar og sóknarnefndar. Eins seldust bleikar slaufur fyrir rúmlega kr. 600.000.- Samtals skilaði því Bleikur október í Bústaðakirkju, Ljósinu og Krabbameinsfélaginu yfir kr. 1.400.000.-
Andrea Þóra Ásgeirsdóttir, kirkjuhaldari, afhenti Ernu staðfestingu þessa, eins og sést á myndinni. Með þeim á myndinni eru Hólmfríður Ólafsdóttir djákni, Sigurjóna Sigurðardóttir, séra Sigríður Kristín Helgadóttir, séra Þorvaldur Víðisson, Brynjólfur Eyjólfsson formaður stjórnar Ljóssins og séra Laufey Brá Jónsdóttir.
Fulltrúar Bústaðakirkju og Kvenfélagsins fengu leiðsögn um húsakynni Ljóssins og kynningu á því frábæra starfi sem þar fer fram. Nánari upplýsingar um það má finna á vef Ljóssins. Við þökkum hlýjar móttökur.
Umfjöllun um heimsóknina má einnig finna á vef Ljóssins, sjá hér.
Höldum áfram að styðja Ljósið.