11
2024 October

Hinsegin dagar

Hinsegin dagar eru haldnir hátíðlega um þessar mundir. Á fræðsluvefnum otila.is segir að "í dag eru Hinsegin dagar í Reykjavík sex daga menningarhátíð og dagskráin á laugardeginum, með gleðigöngu og tónleikum á Arnarhóli, er þriðja stærsta útihátíðin á landinu." Hinsegin dagar standa yfir frá 6. ágúst til 11. ágúst.

Það er full dagskrá í boði, en hana má sjá á heimasíðu hinsegin daga, hinsegindagar.is.

Fossvogsprestakall tekur þátt í hátíðarhöldunum. Við fögnum fjölbreytileikanum í gleði og flöggum pride fánanum bæði í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.

Fræðsla er lykilatriði

Barátta hinsegin samfélagsins er langt frá því að vera búin. Mikilvægt er að sýna málefnum hinsegin samfélagsins stuðnings og efla fræðslu um slík málefni. 

Í fermingarfræðslu Fossvogsprestakalls fáum við fræðslu frá Sólveigu Rós, foreldra og uppeldisfræðingi. Hún flytur fræslu sem ber heitið Hinseginleikinn í ljósi trúarbragðanna. Fræðslan er fyrir fermingarbörn, foreldra og forráðafólk.

Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður,
undursamleg eru verk þín,
það veit ég næsta vel.

-Sálmarnir 139.14

Gleðigangan, verum með!

Hinsegin dagar ná hápunkti sínum með Gleðigöngunni, sem er að þessu sinni laugardaginn 10. ágúst kl. 14. Gengið er frá Hallgrímskirkju eftir Skólavörðustíg, sem er fallega skreyttur regnbogalitunum. 

Í mörg ár hefur ÆSKÞ, Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar, tekið þátt í Gleðigöngunni til að sýna stuðning. Þau sem hafa áhuga á því að ganga með ÆSKÞ eru velkomin að mæta á undirbúningsfund, föstudaginn 9. ágúst kl. 20-22 í Breiðholtskirkju og svo við Hallgrímskirkju á laugardeginum kl. 13.

Gleðilega hinsegin daga!

Á vefsíðu hinsegin daga stendur í gleðigöngunni "sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín. Gangan er í senn kröfuganga hinsegin fólk, sem kallar eftir jafnrétti, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar, sem og vettvangur til að fagna því sem hefur unnist í baráttunni."

Á myndinni má sjá hópinn sem að gekk í gleðigöngunni á vegum ÆSKÞ árið 2018.

Gleðilega hinsegin daga!