Fermingarbörnin fengu góðar viðtökur
Árleg söfnun fermingarbarna fyrir Hjálparstarf kirkjunnar fer fram þessa dagana um land allt. Fermingarbörnin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju gengu í hús í gær, miðvikudaginn 8. nóvember sl. Þrátt fyrir að Skrekkur væri í gangi og ýmislegt fleira á dagskránni hjá krökkunum þá mættu þau vel og stóðu sig mig prýði.
Við þökkum öllum sem lögðu sitt að mörkum til söfnunarinnar.
Fjármagnið sem safnaðist verður, sem fyrr, nýtt til að reisa vatnsbrunna í Afríku. Þar er þörfin víða gríðarlega brýn fyrir hreint vatn. En þegar brunnar hafa verið reistir á þessum afskekktu stöðum, sparast dýrmætur tími hjá börnum sem áður þurftu að ganga um langan veg til að sækja vatn fyrir fjölskyldu sína. Hin jákvæða afleiðing þess að vatnsbrunnar eru reistir í þorpunum er því sú að börnin geta nýtt tímann í annað, eins og farið skóla, menntað sig og undirbúið sig betur fyrir framtíðina.
Vatnsbrunnaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar er því gríðarlega mikilvægt fyrir þúsundir manna. Lífsgæði heilu þorpanna hafa batnað á byltingarkenndan máta á undanförnum áratugum, þar sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur komið að.
Þess má geta að hjálpin sem veitt er á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar er ávallt hjálp til sjálfshjálpar, þ.e.a.s. fólkið sjálft leggur mikið að mörkum, fólkið sjálft er stutt á þann máta að það verði betur í stakk búið til að takast á við verkefni lífsins. Sá er einnig útgangspunktur Hjálparstarfs kirkjunnar í öðrum verkefnum, innanlands og utan, þ.e.a.s. hjálp til sjálfshjálpar, hjálpin er veitt til að efla fólk til framtíðar.
Við þökkum öllum fyrir þátttökuna og fyrir framlögin öll til fermingarbarnasöfnunarinnar, þetta árið.