Fámennt en góðmennt
Sunnudaginn 7. júlí var helgihald í báðum kirkjum Fossvogsprestakalls, Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Fámennt var í báðum messunum, enda fólk á faraldsfæti á þessum tíma árs og veðrið skartaði sínu fegursta. Góðmennt var hins vegar og góður andi og stemmning í báðum stundunum. Við þökkum öllum sem mættu, fyrir samveruna.
Messa með altarisgöngu og ungur meðhjálpari
Í Grensáskirkju fór fram hefðbundið helgihald kl. 11, þar sem gengið var til altaris. Þema dagsins var trúfesti Guðs, sem finna mátti stað í þeim textum sem lesnir voru og þeim sálmum sem sungnir voru. Kirkjukór Grensáskirkju söng undir stjórn Ástu Haraldsdóttur organista. Séra Þorvaldur Víðisson prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt messuþjónunum Kristni Guðmundssyni og Signýju Gunnarsdóttur. Björn Ágúst 5 ára annaðist um kirkjuklukkurnar að þessu sinni ásamt Halldóri Pedersen, og saman hringdu þeir inn messuna. Hér má sjá þá vinina sitja á bekknum fyrir utan Grensáskirkju í morgunsólinni.
Gréta Hergils, Mario Tahtouh og Jónas Þórir, ásamt séra Þorvaldi og messuþjónum
Í Bústaðakirkju fór fram kvöldmessa kl. 20, þar sem umgjörðin var heimilisleg og látlaus. Gréta Hergils sópran söng einsöng og leiddi almennan safnaðarsöng ásamt Mario Tahtouh bassa-barítón frá Líbanon og Jónasi Þóri organista. Séra Þorvaldur Víðisson flutti hugleiðingu og leiddi stundina ásamt messuþjóninum Guðrúnu Sigríði Jakobsdóttur.
Auk sálma sem sungnir voru í almennum safnaðarsöng, fluttu þau Gréta og Mario dásamlega tónlist undir stjórn Jónasar Þóris. Þar á dagskrá voru meðal annars Ave Mariur, Draumalandið, Summertime og fleiri perlur.
Hér má sjá þau saman að loknu helgihaldinu, Jónas Þóri, Mario, Grétu og séra Þorvald.
Við þökkum öllum innilega fyrir samveruna
Við þökkum öllum sem mættu í helgihald dagsins fyrir samveruna.
Jafnframt biðjum við sérstaklega fyrir öllum sem eru á ferð þessa dagana, megi umferðin ganga vel og allir skila sér heilir á leiðarenda.
Hér við hliðina eru kirkjuklukkur Grensáskirkju, sem þeir vinirnir Halldór Pedersen og Björn Ágúst 5 ára hringdu á sunnudagsmorguninn.
Megi góður Guð blessa ykkur sumarið.