05
2024 maí

Enginn skortur á Guðs orði

Það er svo sannarlega enginn skortur á Guðs orði í Grensáskirkju. Hér er mikið biblíusafn sem hefur verið gefið kirkjunni í gegnum árin. Biblíur á hinum ýmsu tungumálum í öllum stærðum og gerðum. 

Það er við hæfi að draga fram þetta ríkulega safn þessa vikuna, en sunnudaginn 4. febrúar er biblíudagurinn haldinn hátíðlega í kirkjum landsins.

Fjölskyldu-stöðvamessa á biblíudeginum

Í Grensáskirkju er búið að leggja fram hinar ýmsu Biblíur á borð og eru þær til sýnis þessa vikuna til þess að fagna biblíudeginum. Þá verður sérstakelga fjallað um Biblíuna í fjölskyldu-stöðvamessu í Grensáskirkju sunnudaginn 4. febrúar kl. 11. 

Verið öll hjartanlega velkomin.

Biblíudagurinn

Biblíudagurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, dagur sem er helgaður hinni helgu bók. 

Biblían er enn þann daginn í dag bókin sem er mest seld í heiminum öllum. Hún hefur verið þýdd á flest töluð tungumál samtímans og við viljum geta gengið að Guðs orði nánast hvar sem er í heiminum.

Hið íslenska biblíufélag (HÍB) hefur það erindi að varðveita orðið og dreifa því. Félagið er elsta starfandi félag landsins, en það var stofnað árið 1815.

Félagið gefur líka út fréttabréfið B+, en það má nálgast það í forsal Grensáskirkju.