24
2024 April

Mikið sungið

Vorhátíð barnastarfsins í Bústaðakirkju fór fram sunnudaginn 14. maí kl. 11. Hátíðin hófst á barnamessu í Bústaðakirkju þar sem Daníel Ágúst Gautason djákni leiddi stundina ásamt Sólveigu Franklínsdóttur æskulýðsfulltrúi og séra Þorvaldi Víðissyni og leiðtogum. Jónas Þórir organisti lék af fingrum fram á flygilinn og leiddi söng.

Sum barnanna komu upp að altari og mynduðu kór sem tók hressilega undir í söngnum, til dæmis í barnasálminum Djúp og breið. 

Kastið netinu hinum megin

Biblíusaga var sögð af lærisveinunum sem voru að fiska. Þeir höfðu ekkert fengið í langan tíma, þar til maður kallaði frá landi og sagði þeim að kasta netinu hinum megin. Sagan var leikin með tilþrifum um leið og hún var sögð, þar sem netinu (gráa dúknum) var sveiflað og kastað og loks kastað hinum megin. Þá loks fylltist netið. En þetta var einmitt ein af frásögunum af Jesú er hann birtist lærisveinum sínum upprisinn frá dauðum. En þá mætti hann þeim á ströndinni og leiðbeindi þeim. Svo í kjölfarið grilluðu þeir fisk og fengu sér að borða. 

Grilluðum pylsur, ekki fisk

Að lokinni gefandi og góðri stund í kirkjunni hélt dagskráin áfram í safnaðarheimilinu. Þar var einnig grillað, eins og í frásögunni af Jesú, en í safnaðaheimilinu voru grillaðar pylsur, en ekki fiskur.

Gunnar Sigurðsson fv. formaður sóknarnefndar Bústaðakirkju stóð vaktina við grillið ásamt Ásbirni Björnssyni framkvæmdastjóra og voru á annað hundrað pylsur grillaðar ofan í fjöldann. 

Andlitsmálun

Í safnaðarheimilinu var boðið upp á andlitsmálun, þar sem frábærir leiðtogar úr æskulýðsfélaginu sáu um þjónustuna. Þar birtust á andlitum barnanna tígrisdýr og fiðrildi, hjörtu og hvaðeina, eins og sést á fleiri myndum hér fyrir neðan. Sólveig æskulýðsfulltrúi bættist í hóp sjóræninganna í myndinni "Pirates of the Carribean", eins og sést á þessari mynd. 

Fjársjóðskistan

Alltaf er jafn spennandi að kíkja í fjársjóðskistuna. Það er merkilegt með þá kistu að það brakar gríðarlega í henni, þegar hún er opnuð. Að þessu sinni var spennandi ratleikur í fjársjóðskistunni, sem börnin leystu síðan í safnaðarheimilinu. Þegar þau luku ratleiknum fengu þau öll verðlaun. 

Fiðrildi og tígrisdýr

Í andlitsmáluninni litu ýmsar furðuverur dagsins ljós. Þar mátti sjá einhyrninga og regnboga, hjörtu og stjörnur. Einnig var þar að finna falleg tígrisdýr og fiðrildi. 

Tigrisdýr og fiðrildi

Í andlitsmáluninni litu ýmsar furðuverur dagsins ljós. Þar mátti sjá einhyrninga og regnboga, hjörtu og stjörnur. Einnig var þar að finna falleg tígrisdýr og fiðrildi. 

Með kærum þökkum og gleðilegt sumar

Vorhátíðin markar lok vetrarstarfsins, þar sem barnamessurnar munu hefjast að nýju um mánaðarmótin ágúst/september. Guðsþjónusturnar í sumar verða klukkan 20 í Bústaðakirkju. Þess má geta í því samhengi að helgihaldið í Grensáskirkju verður kl. 11 í sumar. Í Fossvogsprestakalli verður því hægt að sækja bæði helgihald að morgni, þ.e.a.s. kl. 11 á sunnudögum í Grensáskirkju, eða að kvöldi, þ.e.a.s. kl. 20 á sunnudögum í Bústaðakirkju. 

Verið hjartanlega velkomin í kirkjur Fossvogsprestakalls, Grensáskirkju og Bústaðakirkju.

Staðsetning / Sókn