03
2023 October

Skapandi starf

Uppskeruhátíð barnastarfsins í Grensáskirkju fór fram í dag. Kirkjuprakkarar í Grensáskirkju eru á aldrinum 6-9 ára og TTT hópurinn, er krakkar á aldrinum 10-12 ára og hafa þau verið að störfum síðustu tæpar sjö vikurnar á hverjum þriðjudegi. Yfirskrift starfsins á þessu vori var "Sjö gildi í góðum samskiptum". Gildin sjö sem unnið var með eru vinátta, fyrirgefning, samkennd, gleði, traust, virðing og þakklæti. 

Fjölskyldustöðvamessa fór fram í Grensáskirkju í dag, þar sem krakkarnir í barnastarfinu sýndu afraksturinn af störfum sínum. 

Þau máluðu boli og gerðu sameiginlegt listaverk með fingramálningu sem síðan var klippt niður og sett í ramma, sem hvert og eitt barn gat tekið heim með sér.

Nýjungar í helgihaldi, ýmsar stöðvar

Í fjölskyldustöðvamessu dagsins var hægt að fara á þrjár stöðvar. Við skírnarfontinn var hægt að snerta á vígðu vatni, signa sig með því eða væta á sér augun, eins og stundum er gert. Vígða vatnið minnir okkur á að við erum öll elskuð Guðs börn.

Á annarri stöðinni voru sítrónur og súkkulaði í boði. Þar fengu þátttakendur tækifæri á að staldra við súru og sætu atburði lífsins. Sítrónan dregur fram súran keim í munni sem gefur áþreifanleg skilaboð um hið súra og erfiða í lífinu. Súkkulaðið minnir á það sæta og góða. En allt er það í höndum Guðs, sem blessar reynslu okkar og líf. 

Bænatréð

Þriðja stöðin í fjölskyldustöðvamessunni var bænatréð. Við bænatréð fengu þátttakendur tækifæri til að biðja sínar bænir, leggja þær fram fyrir Guð í orði og einnig í verki, þ.e.a.s. með því að binda litríkt bænaband á greinar trésins. Áþreifanlegt merki og tákn um bænina sem við trúum að Guð heyri og svari. 

 

Séra Eva Björk flutti hugleiðingu

Góð mæting var á uppskeruhátíðina og í fjölskyldustöðvamessuna. Séra Eva Björk Valdimarsdóttir flutti hugvekju þar sem hún reifaði hið góða starf sem fram fór með börnunum í kirkjuprakkarastarfinu og TTT. 

Hún fjallaði m.a. um gildin sjö sem unnið var með og sagði frá listaverkunum sem voru til sýnis í safnaðarheimilinu og voru afrakstur starfsins með krökkunum. 

Glerkrukkur voru málaðar og steinar litaðir

Margt var brallað í barnastarfinu og allt var það tengt yfirskriftinni um gildin sjö. Krukkur voru málaðar og steinar litaðir. 

Steininn var tákn fyrir traust

Steinar voru málaðir og fjallað um gildin góðu.

Glerkrukkur og virðingin

Glerkrukkur voru málaðar og fjallað um virðinguna.

Ýmis tákn voru sýnileg í verkum barnanna, hjörtu, krossar og fleira. 

Umsjónarmennirnir

Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi leiddi starfið ásamt séra Evu Björk Valdimarsdóttur og Margréti Mayu Osti, en þær má sjá á myndinni hér til hliðar, ánægðar með uppskeruhátíðina og fjölskyldustöðvamessuna. Einnig komu að starfinu fleiri leiðtogar, eins og Fura Elín Ólafsdóttir og Ásmundur Máni Þorsteinsson auk hinna prestanna og starfsfólks. 

Við þökkum öllum börnunum sem tóku þátt í kirkjuprakkarastarfinu og TTT og fjölskyldum þeirra fyrir samveruna í dag og fyrir skemmtilega viðkynningu á vettvangi Grensáskirkju. 

Verið hjartanlega velkomin í barna- og æskulýðsstarfið í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju.