20
2024 July

Blómleg dagskrá í bleikum október

Dagskráin í bleikum október í Bústaðakirkju, var blómleg og fjölbreytt. Hádegistónleikar voru á miðvikudögum þar sem félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju sungu ásamt góðum gestum, við undirleik Jónasar Þóris kantórs. 

Dagskráin í eldri borgarastarfi prestakallsins á miðvikudögum tók einnig mið af bleikum október og komu góðir gestir í heimsókn.

Sunnudagshelgihaldið var fjölbreytt og vel sótt.

Mózart í bleiku

Síðasta sunnudag október mánaðar var tónlist W.A.Mozarts í fyrirrúmi í helgihaldi dagsins. Kammerkór Bústaðakirkju söng margar af perlum Mozarts við undirleik og samleik Jónasar Þóris kantórs og Matthíasar Stefánssonar fiðluleikara. Margrét Hannesdóttir söng einsöng, Guðjón V. Stefánsson söng einsöng, Bernedette Hegyi söng einsöng. Séra Þorvaldur Víðisson þjónaði fyrir altari ásamt messuþjónum. 

 

Benedikt Kristjánsson tenór

Benedikt Kristjánsson tenór söng gamla sálma (á nýjum belgjum) ásamt Jónasi Þóri kantór á hádegistónleikum miðvikudaginn 26. október. 

Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri

Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar kynnti nýja sálma í starfi eldri borgara miðvikudaginn 26. október sl. Fyrr í október hélt hún hádegiserindi í Bústaðakirkju um útgáfu nýrrar sálmabókar þjóðkirkjunnar, sem nú er komin út. Um er að ræða glæsilega nýja útgáfu sálmabókarinnar, þar sem finna má nýja sálma í bland við gamla og þekkta sálma. 

Bítlamessa í Bústaðakirkju

Bítlalög og textar voru á dagskrá helgihaldsins sunnudaginn 23. október. Kammerkór Bústaðakirkju söng Bítlalögin við undirleik Jónasar Þóris. Séra María G. Ágústsdóttir prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt messuþjónum. 

Norsk tónlist og einnig tal

Sendiherra Norðmanna á Íslandi, Aud Lise Norheim, sótti norsku messuna í Bústaðakirkju,16. október, þar sem tónlist eftir Grieg, Lövland, Kverno og fleiri var á dagskránni. Kammerkór Bústaðakirkju söng og fluttu margir af félögum kórsins einsöng. 

Tenórar í banastuði

Tenórarnir Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Marteinn Snævarr Sigurðsson og Gunnar Guðbjörnsson voru í banastuði á hádegistóneikum miðvikudaginn 12. október. 

Tónlist frá nýja heiminum

Bandarísk tónlist, sálmar, gospel, blús og fleira var á efnisskrá Kammerkórs Bústaðakirkju í guðsþjónustu sunnudagsins 9. október. Séra Eva Björk Valdimarsdóttir þjónaði fyrir altari. 

Mikil sveifla og jazz-stemmning, lífsgleði og gaman

Sigurður Flosason, Einar Scheving og Jónas Þórir djössuðu sálmana í mikilli sveiflu á fyrstu hádegistónleikum Bleiks október í Bústaðakirkju, miðvikudaginn 3. október. 

Að tónleikum loknum kynnti séra Hjálmar Jónsson nýútkomna bók sína, Stundum verða stökum til, fyrir gestum í eldri borgarastarfi Bústaðakirkju, þar sem mikið var hlegið og kátt á hjalla.

Nýir sálmar og séra Kristján Valur Ingólfsson

Bleikur október hófs á guðsþjónustu sunnudaginn 2. október þar sem nýir sálmar voru í fyrirrúmi. Séra Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti prédikaði í guðsþjónustu dagsins. Í hádeginu, á milli barnamessunnar og guðsþjónustunnar flutti Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar erindi um útgáfu hinnar nýju sálmabókar. 

Bleikur október í Bústaðakirkju, styður Ljósið

Bleikur október í Bústaðakirkju minnti þátttakendur á Ljósið, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Tónleikagestir á hádegistónleikunum fengu tækifæri til að leggja Ljósinu lið með fjárframlagi.

Við þökkum öllum sem lögðu Ljósinu lið í Bleikum október í Bústaðakirkju og tóku þátt í dagskránni með okkur með einum eða öðrum hætti.

Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Nánari upplýsingar um þjónustu og dagskrá kirkjunnar í prestakallinu má finna á þessari heimasíðu. 

Staðsetning / Sókn