Lifi lífið - Bústaðakirkju, sunnudaginn 19. febrúar kl. 13

Ljóð eftir Sigurbjörn Þorkelsson við tónlist eftir Jóhann Helgason, sem mun jafnframt leika á gítar og syngja, verður í fyrirrúmi í guðsþjónustu dagsins í Bústaðakirkju, sunnudaginn 19. febrúar 2023 kl. 13:00. 

Páll Rósinkranz, Regína Ósk ásamt Kammerkór Bústaðakirkju munu syngja. 

Matthías Stefánsson leikur á fiðlu, Bjarni Sveinbjörnsson á bassa og Jóhann Helgason á gítar. Jónas Þórir kantor Bústaðakirkju leikur á píanó og hammond-orgel og stjórnar tónlistinni.

Sigurbjörn Þorkelsson, prédikar og séra Þorvaldur Víðisson þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum.

Lifi lífið, textar eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Sigurbjörn Þorkelsson er rithöfundur og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka, þar sem trúarstef eru ríkur þáttur. Einnig hefur hann ritað smásögur, barnabækur og skáldsögu. Sigurbjörn hefur starfað sem framkvæmdastjóri Gídeonsfélagsins og forseti þess. Hann starfaði um árabil sem forstöðumaður í sumarbúðum KFUM og framkvæmdastjóri félagsins. Þá hefur hann jafnframt starfað sem framkvæmdastjóri og meðhjálpari í Laugarneskirkju. Undanfarin ár hefur hann talað opið um glímu sína við krabbamein þar sem slagorð hans Lifi lífið, hefur orðið heimsfrægt á Íslandi.

Tónlistin eftir Jóhann Helgason

Á sumardaginn fyrsta í fyrra kom út hljómdiskurinn, Lifi lífið, með vísan í ofangreind orð Sigurbjörns, en textarnir á hljómdisknum eru eftir hann. Jóhann Helgason, tónlistarmaður og tónskáld samdi tónlistina við ljóð Sigurbjörns.

Jóhann Helgason hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna, sem einn fjölhæfasti og afkastamesti lagahöfundur og flytjandi landsins. Fyrir utan eftirtektarverðan sólóferil hefur Jóhann auk þess starfað með nokkrum mjög vinsælum hljómsveitum og flytjendum s.s. Magnús & Jóhann, Change, Poker, Þú & Ég o.fl. Fjölmörg laga Jóhanns hafa notið víðtækrar hylli landsmanna og löngum setið í efstu sætum á spilunarlistum útvarpsstöðva. Sum hver hafa fest rætur í þjóðarsálinni og eru iðulega sungin við margvíslegar opinberar athafnir.                                                               

Jóhanni var fyrstum íslenskra tónlistarmanna boðin höfundarréttarsamningur erlendis. Árið 1972 undirritaði hann höfundarréttar- og hljómplötusamning við Orange Music í London og hljóðritaði ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni tvær smáskífur og eina LP plötu fyrir Orange. Tveim árum síðar bauðst Jóhanni höfundarréttarsamningur við Chappell & Co Ltd., í London og hljóðritaði hann ásamt hljómsveitinni Change, tvær smáskífur fyrir EMI auk LP plötu fyrir Chappell sem útsett var af H.B. Barnum.

Sem annar helmingur dúettsins Þú og Ég/You & I, bauðst Jóhanni  útgáfusamningur við EPIC/SONY Inc. í Japan á níunda áratugnum. Hljómplötur dúettsins seldust í yfir þrjú hundruð þúsund eintökum þar í landi. Jóhann hefur tvívegis hlotið silfurverðlaun í alþjóðlegum söngvakeppnum fyrir lag sitt “Sail On”.

Útgefin lög Jóhanns bæði í eigin flutningi og annara eru vel á fimmta hundrað auk á annað hundrað texta. Tónlist Jóhanns hefur verið gefin út í nokkrum löndum utan Íslands, á meðal þeirra eru England, Spánn, Þýzkaland, Ástralía og Japan. Á ferlinum hefur Jóhann unnið til yfir þrjátíu gull- og platínuplatna.

Tónlistin af hljómdisknum Lifi lífið, verður í forgrunni í guðsþjónustu dagsins í Bústaðakirkju.

Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju sunnudaginn 19. febrúar kl. 13.

Lifi lífið

Lifi lífið!

Guðsþjónusta í Bústaðakirkju sunnudaginn 19. febrúar kl. 13. Tónlist eftir Jóhann Helgason, textar eftir Sigurbjörn Þorkelsson. Páll Rósinkranz og Regína Ósk syngja ásamt Kammerkór Bústaðakirkju. Matthías Stefánsson leikur á fiðlu, Bjarni Sveinbjörnsson á bassa, Jóhann Helgason á gítar og Jónas Þórir á hammond-orgel og flygil, ásamt því að stjórna tónlistinni. 

Sigurbjörn Þorkelsson prédikar. Séra Þorvaldur Víðisson þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum. 

Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju.