Kvöldmessur í kyrrð og friði

Á sunnudagskvöldum í sumar bjóðum við til kvöldmessu á ljúfu nótunum í Bústaðakirkju. Stundin hefst kl. 20 og tekur um það bil 45 mínútur. Að þessu sinni syngur óperusöngkonan Ísabella Leifsdóttir fyrir okkur og með okkur. Með henni leikur Arnhildur Valgarðsdóttir á hljóðfærið. 

Sr. María G. Ágústsdóttir þjónar ásamt messuþjónum. Þetta er síðasta messa sr. Maríu í bili. Hún mun þjóna í Glerárkirkju á Akureyri í haust til að geta verið nær syni sínum og tengdadóttur sem þar búa en þau eignuðust sitt fyrsta barn nýlega. 

Við hlökkum til að eiga góða stund saman á sunnudagskvöldið í Bústaðakirkju. 

Ísabella Leifsdóttir lærði óperusöng í Royal Northern College of Music í Manchester á Englandi. Hún hefur tekið þátt í mörgum söngviðburðum á ferli sínum og einnig framleitt óperur ásamt öðrum. Síðustu ár hefur Ísabella einbeitt sér að samtímatónlist og vann nú síðast að samsköpun nýrrar óperu, EKKO, með danska óperufélaginu Oper Arkitekterne, haustið 2023.

Ísabella syngur með Kammerkór Bústaðakirkju og hefur í vetur haft umsjón með barna- og æskulýðsstarfi í Víðistaðakirkju og stjórnar þar barnakór. 

Myndina af Ísabellu tók Kristian Hannibal Bach á óperunni EKKO síðastliðið haust. 

 

Arnhildur Valgarðsdóttir er organisti og kórstjóri við Guðríðarkirkju. Hún lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010. Árið 1995 útskrifaðist Arnhildur með gráðu í píanóleik og söng frá Royal Scottish Academy of Music and Drama. Hún er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við ýmsa tónlistarmenn.