Tónaflóð lífsins

2013-10-07 11:00:00

 

 

Oft þegar ég fylgist með framkomu fólks gagnvart hvert öðru velti ég því fyrir mér hve fáir þættir skilja á milli góðrar framkomu og slæmrar. Þegar ég hlusta á tónlist hugsa ég á sama hátt um einfaldleikann sem býr að baki tónlistinni en þar eins og í framkomunni eru fáir þættir undirstaðan.

 

Tónlist grundvallast aðeins á 12 nótum sem eru í einni áttund. Þessir 12 tónar á nótnaborði endurtaka sig svo í mismunandi tónhæðum. Þótt grunnurinn sé svona fábreyttur virðist fjölbreytileiki tónlistarinnar óendanlegur. Úr þessum 12 tónum verður til sígild tónlist, dægurtónlist, þjóðlagatónlist, jazz og sálmar í óendanlegum fjölbreytileika. Fólk hefur mismikla hæfileika til þess að skapa tónlist, túlka hana og njóta og áhugasvið fólks eru fjölbreytt. Sumir semja tónverk með notkun fárra tóna meðan aðrir nota tónstigann til fullnustu. Sumir setja saman yndislega samhljóma sem hrífur fjöldann meðan aðrir semja verk sem vekja hrifningu fámennra hópa. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti daglegs lífs okkar.  Við erum einnig misjafnlega móttækileg fyrir tónlist. Allir geta lært undirstöðu atriði tækninnar að semja og flytja tónlist en árangurinn verður mismunandi. Hann ræðst af hæfileikum og ekki síður menntun, þjálfun og ástundun.

 

Samskiptaþættirnir sem skipta máli eru fáir eins og tónarnir í tónstiganum. Þar eru jákvæðir þættir eins og ást, væntumþykja, kærleikur, umburðarlyndi, fyrirgefning, einlægi, trúverðugleiki og fórnfýsi. Svo eru það neikvæðu þættirnir eins og hatur, illgirni, óvild og öfund. Við notum þessa samskiptaþætti á misjafnan hátt og framkoma okkar mótast af þeim þáttum sem við tileinkum okkur. Sumir nota aðeins fáar tóna í samskiptatónaflóði sínu meðan aðrir nota fjölbreytta tóna. Fegurð samhljómsins fer ekki endilega eftir fjöldanum í tónstiganum sem er notaðir heldur hvaða tónar eru valdir og hvernig þeir eru samhæfðir og leiknir. Til þess að geta sett saman fallega samhljóma tónstiga lífsins þurfum við hæfileika og áhuga en ekki síður leiðbeiningar og ástundun. Trúin og sú leiðsögn sem hún gefur er mikilvægt veganesi í vali samskiptanóta til notkunar í tónstiga lífs okkar.  Svo er spurning hvernig við notum þessa tóna til mótunar samhljóma sem auðgar líf okkar og þeirra sem við umgöngumst.

 

04 – september13

Þráinn Þorvaldsson

Situr í sóknarnefnd Bústaðakirkju