Pistill Önnu Sigurðardóttur um messuþjóna og starf þeirra

2014-04-23 12:00:00

Mín leið að verða messuþjónn. 

 

Þegar ég var beðin um að starfa í Bústaðakirkju sem messuþjónn í fyrsta skipti hugsaði ég, þessi maður þekkir mig ekki eða réttara sagt mitt innra.

Ég kom að heimili þeirra hjóna, Þorsteins og Auðar, á hverjum degi sem bréfberi og höfðu þau oft séð mig í kirkjunni. 

Þar sem ég hef alla tíð verið til baka og ekki haft mig mikið í frammi öfugt til dæmis við manninn minn sem skellir sér inn í hóp og á ekki í vandræðum með að tala og gefa af sér.

Ég sagði að ég gæti ekki gert þetta vegna þess að þá þyrfti ég að standa í pontu fyrir framan fullt af kirkjugestum og lesa ritningagreinar ofl.

Þorsteinn sagði að það þyrftu ekki  allir að gera það, margt annað þyrfti að gera. Til dæmis taka á móti kirkjugestum, afhenda sálmabækur eða blöð, kveikja á kertum, setja sálmanúmer á vegg, ganga frá sálmabókum og gefa kaffi eftir messu.

Ég lofaði að athuga málið. Stóra málið var hvort ég þyrði.

Hvert sinn sem ég kom að heimili þeirra hjóna bjóst ég við að að nú yrði ég spurð aftur en það gerðist ekki.

Ég er kirkjurækin og líður afskaplega vel að koma í hið helga hús og Bústaðakirkja er mín kirkja þó ég búi í öðru hverfi og í fimm mínútna göngufæri frá kirkju þar.  Séra Pálmi hefur þjónað minni fjölskyldu í sorg og gleði frá því  hann kom til starfa í Bústaðakirkju og mér líkar umgjörðin og messuformið þar vel.

Ég hugsaði oft um hverju ég mundi svara ef ég yrði spurð aftur en maðurinn minn hvatti mig óspart „ef þú verður spurð segirðu auðvita já“. 

Jæja það liðu margir mánuðir og ég var hætt að hugsa um þetta og mætti bara í messu eins og venjulega. Ég hafði kynnst Ólöfu á einu námskeiðinu í Bústaðakirkju, og hún var í dyrunum ásamt Guðmundi manni sínum þegar ég kom til messu í eitt skiptið. 

Hún dró mig til hliðar og spurði hvort ég vildi ekki vera messuþjónn í hennar hópi. Þar kom vel á vondan, ég man ekki hvort ég svaraði henni straks  eða hvort hún hringdi í mig seinna. Ég man það bara að nú yrði ég að hrökkva eða stökkva eða bara fara að stunda mína heimakirkju.

Eftir að hafa velt þessu fram og til baka í huganum ákvað ég að prófa.  Ég sé ekki eftir því og hef starfað hér á fjórða ár og kynnst góðu fólki sem lætur sig kirkjuna og hennar málefni varða. Eftir að hafa staðið í strögli við sjálfa mig hvort ég ætti eða ætti ekki hvet ég aðra til að taka þátt í sjálfboðastarfi kirkjunnar og vera meira en bara þiggjandi og finna hvað þetta starf er gefandi.