Leitin að birtunni. Pistill Þráins Þorvaldssonar

2013-09-03 10:00:00

Leitin að birtunni.

 

Undanfarið hefur óvenjuleg þróun hefur verið að eiga sér stað í stofunni á heimili okkar hjóna. Þessi þróun er í  raun undur. Að fylgjast með þessu fyrirbrigði leiddi huga minn að leitinni að birtunni og lífsljósinu sem er ein af forsendum hamingjuríks lífs.

 

Elín kona mín ann blómum sem skreyta m.a. stofuna okkar. Eitt af blómunum heitir Mánagull. Mánagullið vex út litlum blómapotti ofan á arninum sem er á miðjum vegg andspænis gluggum. Mánagullið hefur verið á sínum stað í fjölda ára og vaxið hægt. Fyrir allt löngu síðan tókum við eftir því að sproti úr blóminu hóf ferðalag. Hann las sig niður eftir arninum og snéri sér áleiðis að endavegg í stofunni sem liggur að gluggaveggnum. Sprotinn fór ekki stystu leið. Hann fór yfir borð og stól með veggjum og lét bil milli húsgagna ekki aftra sér heldur lagði á djúpið yfir á næsta fasta land. Sprotinn hélt svo áfram með veggnum eftir sófanum og er nú kominn langleiðina út að glugga meira en sex metra frá blómapottinum. Fyrir skömmu tókum við svo eftir því að fjórir nýir sprotar eru lagðir af stað. Leiðin er rudd. Fleiri sprotar vilja komast í birtuna.

 

Við hjónin stóðum fyrir skurði á ætihvönn í fjölda ára m.a. undir Víkurhömrum í Vík í Mýrdal. Þar er mishæðótt, gjótur og steinar. Við tókum eftir baráttunni milli einstakra plantna um að ná til birtu og sólar. Sumar hvannirnar náðu meiri hæð en aðrar og blómstruðu vel. Aðrar plöntur urðu undir í baráttunni um birtuna og náðu ekki í sólargeislana. Blöð þeirra plantna urðu gul og visin og sumar lifðu ekki af.   

 

Hvaða lærdómur getum við dregið af þessum dæmum úr náttúrunni? Okkur er öllum eðlislegt að leita birtunnar ekki síður en plöntunum. Birtan er samsvörun jákvæðni, vonar og kærleika sem veitir lífsgleði. Við finnum þessa þætti eins og birtuna ef við leitum þeirra. Oft þarf að hafa fyrir því að komast að þeim og leiðin er ekki alltaf bein. Í lífi mínu finnst mér trúin vera mikilvægur leiðbeinandi þáttur að birtunni og að viðhalda henni. 

 

03 - ágúst 2013

Þráinn Þorvaldsson

Situr í sóknarnefnd Bústaðakirkju
 

------
 

PS: Mikilvægi stofuplanta

 

Í áhugaverðri grein sem birt er á vefsíðu Garðheima er sagt frá því að stofuplöntur geti verið hjálplegar við að hreinsa eiturefni úr lofinu. Geimferðastofnun Bandaríkjanna leitar að lífrænum lausnum gegn eiturefnum sem liggja í andrúmsloftinu, lausnum sem gætu nýst jafnt á jörðu sem í geimstöðvum. Mánagull og Veðhlaupari voru meðal þeirra plantna sem komu vel út í rannsóknum. Stofuplöntur væru því ekki aðeins til skrauts heldur gætu einnig orðið til þess að hreinsa andrúmsloftið á heimilum og vinnustöðum og stuðla að auknu heilbrigði fólks.