Kærleikur er umhyggja

2013-06-24 12:00:00

Hvað er kærleikur? Ýmsar skilgreinar eru á kærleika. Hann hefur verið skilgreindur sem hvert góðverk sem við vinnum, brosið sem við sendum öðrum, faðmlög sem við gefum þeim sem búa við sorg, huggun þá sem syrgja og gjafmildi til þeirra sem þarfnast. Að mínum dómi er mikilvægasta skilgreining á kærleika umhyggja okkar fyrir öðrum.

 

Fyrir nokkrum dögum var ég að laga til í garðinum við húsið okkar og rótaði til í beði. Við umrótun á jarðveginum losnar m.a. um orma sem smáfuglar kunna vel að meta. Sjón fugla er góð og þeir eru fljótir að greina garða þar sem unnið er að garðavinnu. Allt í einu tek eftir því að svartþröstur er kominn við hliðina á mér. Fuglinum stafar enginn ótti af mér og hann fyllir gogginn af ormum og flýgur burt. Eftir skamma stund er hann kominn í annað sinn. Enn fyllir hann gogginn af ormum og flýgur svo brott. Aftur birtist þrösturinn í þriðja sinn og sama endurtekur sig. Hann raðar ormum í gogginn og flýgur. Skömmu síðar er þrösturinn mættur í fjórða sinn. Nú brá svo við að hann raðaði ekki lengur ormum í gogginn heldur hurfu ormarnir niður um muninn. Fuglinn tók dágóðan tíma í þessa matarveislu enda gnægð orma í frjósömum jarðveginum í Fossvoginum. Er þessi hegðan svartþrastarins ekki merki um kærleika? Þrösturinn hugsaði fyrst um að fóðra ungana sína áður en hann fullnægði eigin þörfum. 

 

Er ekki kærleikurinn mestur þegar við sýnum öðrum umhyggju og látum þarfir annarra ganga fyrir okkar eigin.

 

Þráinn Þorvaldsson

Situr í sóknarnefnd Bústaðakirkju