19
2024 maí

Grensáskirkja í hjarta borgarinnar

Grensáskirkja stendur við Háaleitisbraut, við hlið Austurvers. Kirkjan er því staðsett í hjarta borgarinnar og stutt virðist frá kirkjunni í allar áttir. Ýmis starfsemi er í nágrenni kirkjunnar, verslunin Krónan, basar Kristniboðssambandsins, verslunin Ástund og Landsvirkjun, svo eitthvað sé nefnt. Í Grensáskirkju sjálfri er síðan skrifstofa biskups Íslands, sem hefur nú komið sér vel fyrir á skrifstofuganginum. Á neðri hæðinni eru síðan höfuðstöðvar Hjálparstarfs kirkjunnar, þar sem framkvæmdastjóri, félagsráðgjafar og fleiri sinna sinni mikilvægu þjónustu. Þar við hliðina á er síðan Skjólið, dagsetur fyrir heimilislausar konur, sem starfrækt er af Hjálparstarfi kirkjunnar og var komið á fót af frumkvæði frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands. 

Fimmtudaginn 1. júní efndi sóknarnefnd, söfnuður og starfsfólk til vorhreinsunar og hreingerningar í Grensáskirkju og nágrenni. 

Vorhreinsun í Grensáskirkju og í umhverfi kirkjunnar

Vaskur hópur sjálfboðaliða og starfsfólks tók höndum saman. Kirkjan var þrifin hátt og lágt, tré voru snyrt og klippt, rúður pússaðar og stéttirnar sópaðar. Lóðin var hreinsuð og síðan voru gamlar hellur nýttar og þeim raðað í örlitla hellulögn, sunnan við kirkjuna. 

Formaður sóknarnefndar, Erik Pálsson, annaðist meðal annars, ásamt fleirum, hreinsun úr þakrennum, sem margar voru stíflaðar. Þarna á myndinni má sjá formanninn á þaki safnaðarheimilisins.

Þrifið hátt ...

Rúður voru þrifnar og pússaðar, og anddyri kirkjunnar hátt ... 

... og lágt

...og lágt, veggir, rúður og stéttar. 

Lóðin umhverfis kirkjunnar er nokkuð stór og há tré norðan og austan við kirkjuna sem einnig voru snyrt og klippt. Jafnframt var allt rusl hreinsað af lóðinni. 

Einnig var kirkjan þrifin inni

Þótt aðaláhersla dagsins hafi verið á hreinsun kirkjunnar að utan ásamt hreinsun lóðarinnar, var einnig þrifið inni, jafnvel á bakvið altarið, eins og sést á þessari mynd. 

Nauðsynlegt að hlaða batteríin

Þegar verkið var nærri fullnað kom hópurinn saman í safnaðarheimilinu og fékk sér léttar veitingar. Nauðsynlegt er að næra sig þegar mikið er tekið á. Verkfærunum var þá raðað við kirkjuvegginn, rétt á meðan hópurinn hlóð batteríin. 

Myndalegur hópur

Þakkarefni er hve öflugur hópur mætti til starfa og hve allir lögðu sig fram. Árangurinn var líka augljós, lóðin hrein og niðurföllin flest í þakinu, stéttir sópaðar, gluggar hreinir og anddyri, innan sem utan. Allt til prýði og söfnuðinum til sóma. 

Hópurinn var líka hress og fjörugur

Hópurinn var ekki bara myndarlegur, heldur einnig hress og fjörugur, eins og sést á þessari mynd. 

Við þökkum öllum innilega fyrir sem tóku þátt í vorhreingerningum Grensáskirkju.

Vilji fólk taka þátt í helgihaldi, starfi og þjónustu kirkjunnar, þá endilega hafið samband við prestana eða annað starfsfólk. Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í starfi kirkjunnar.