19
2024 maí

Væntum góðs af samningum til framtíðar

Í dag var undirritaður samstarfssamningur Markar hjúkrunarheimilis og Fossvogsprestakalls. Í landfræðilegu skipulagi þjóðkirkjunnar fellur Mörkin hjúkrunarheimili innan Fossvogsprestakalls, Grensássóknar. Á grundvelli þess hafa þróast mjög jákvæð samskipti í gegnum árin sem hafa verið ræktuð m.a. með þjónustu presta, organista og kóra Fossvogsprestakalls, á stórhátíðum. Prestar, djáknar, organistar og kórar hafa sinnt helgihaldi á stórhátíðum á Mörkinni í gegnum árin, í samstarfi við presta, djákna, organista og stjórnendur Markar hjúkrunarheimilis.

Með undirritun þessa samstarfssamnings í dag eru þau jákvæðu samskipti fest í sessi. Prestar Fossvogsprestakalls munu á grundvelli samningsins sinna bakvaktarþjónustu í samráði við stjórnendur Markar. Þeir munu áfram, ásamt sínum organistum og kórum, annast um guðsþjónustur á Mörkinni um jól, páska og hvítasunnu. Jafnframt munu þeir nú annast um sunnudagshelgihald einu sinni í mánuði ásamt organista Markar hjúkrunarheimilis. 

Hólmfríður Ólafsdóttir djákni mun veita sálgæslu á Mörkinni

Nýbreytnin í samningnum er að Fossvogsprestakall mun nú tryggja ákveðna sálgæsluþjónustu á Mörkinni. Hólmfríður Ólafsdóttir djákni mun á grundvelli samningsins sinna þar sálgæsluþjónustu í allt að 30% starfshlutfalli. Með henni munu svo prestar prestakallsins koma að helgistundum og annarri þjónustu, í samráði við stjórnendur Markar. 

Samstarfshópurinn í Fossvogsprestakalli sem kemur að þjónustunni

Þau sem viðstödd voru undirritun samningsins má sjá á þessari mynd, en þau eru, talin frá vinstri; séra María G. Ágústsdóttir, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna, Jónas Þórir organisti í Bústaðakirkju, Hólmfríður Ólafsdóttir djákni, Ásbjörn Björnsson framkvæmdastjóri Fossvogsprestakalls og séra Þorvaldur Víðisson. Ásta Haraldsdóttir organisti Grensáskirkju, séra Eva Björk Valdimarsdóttir og Daníel Ágúst Gautason djákni voru upptekin í öðrum verkefnum og gátu því ekki verið á staðnum. En þetta er samstarfshópurinn í Fossvogsprestakalli sem mun koma að þjónustunni, ásamt Hólmfríði djákna. 

Í Fossvogsprestakalli fögnum við undirritun samningsins og væntum góðs af honum til framtíðar. 

Samningurinn er liður í því markmiði og þeirri stefnu sóknarnefnda og starfsfólks prestakallsins að efla samstarfið við mikilvægar stofnanir innan prestakallsins. 

Undirritunin fór fram á notalega kaffihúsinu í Mörkinni, en það er opið öllum almenningi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af þessu tilefni.