Ferming

 

Ferming er guðsþjónusta, þar sem skírður einstaklingur staðfestir með játningu sinni þá játningu, sem aðrir fóru með fyrir hans hönd á unga aldri. Fermingin fer fram, þegar viðkomandi barn hefur lokið fermingarundirbúningi og fræðslu fyrir athöfnina. 
Sérstök fermingarathöfn fer fram með þátttöku fermingarbarna, sem flytja bænir, lesa ritningartexta, og aðstoða e.t.v. við útdeilingu. Fermingarbörn eru klædd hvítum kirtlum og sitja í kór kirkjunnar. Tónlist og sálmar eru gjarnan valin úr æskulýðsstarfi kirkjunnar, lög sem fermingarbörnin þekkja. 
 
Þegar fermingarbarn er kallað upp að altari með fullu nafni til þess að staðfesta skírnina er það spurt; viltu leitast við, af fremsta megni, að hafa frelsarann Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Fermingarbarn svarar játandi og krýpur síðan niður. Prestur leggur hönd á höfuð þess og segir; almáttur Guð þinn ástríki faðir, styrki þig og leiði að eilífu. Þá rís fermingarbarn upp og tekur í hönd prestsins og mælir ritningargreinina, sem fermingarbarnið hefur sjálft valið úr ritningunni. 
 
Altarisganga er hluti fermingarinnar og fer hún fram í fermingarmessunni. Fermingarbörn ganga til altaris með foreldrum og öðrum þeim ástvinum, sem óska að fylgja þeim til altaris. 
 
Fermingarbörnin hafa í fermingarfræðslunni lært að þekkja liði messunnar og merkingu þeirra auk almennrar fræðslu um kristna trú, siðfræði, samskipti kynjanna, ábyrgð okkar í sköpunarverkinu o. fl. í Fræðslunni er lögð mikil áhersla á upplifun. 
 
Fermingarbörn eru beðin að vera dugleg að sækja messur með fjölskyldum sínum og þau skulu mæta í messur ekki sjaldnar er 7 sinnum yfir veturinn. Í lok athafnar raða börnin sér upp til hópmyndatöku en beðið er um það að myndataka fari ekki fram í athöfninni sjálfri.