Vígsludagur Bústaðakirkju fyrsti sunnudagur í aðventu.

27.11.2018

Vígsludagur Bústaðakirkju var fyrsta sunnudag í aðventu árið 1971.  Þessa dags er ávallt minnst með gleði og þakklæti. Nú eru það karlarnir í sóknarnefndinni sem baka vöfflur og bjóða til vöfflukaffis eftir messu.

Sérstök aðventukvöld hafa verið í Bústaðakirkju frá því á fyrsta starfsári kirkjunnar. Góðir leikmenn hafa verið ræðumenn. Í fyrstu var það Bræðrafélag Bústaðakirkju sem hélt utan um aðventukvöldið og sá siður skapaðist að tendra ljós frá altarinu og breiða það út meðal kirkjugesta. Táknræn athöfn um komu ljóssins og kærleiksþel manna á milli.

Bústaðakirkju er teiknuð af Helga Hjálmarssyni arkitekt. Helgi býr í sókninni og hefur alla tíð látið sér afar annt um kirkjuna og verið ráðhollur í ákvarðanatöku með sóknarnefndinni. Kirkjunni hefur oft verið líst sem tímalausu verki hvað varðar byggingarstíl. Víst er að hún hefur reynst vel í tíma og rúmi og ótrúlegur fjöldi átt skjól í kirkjunni. Kirkjusmiður var Davíð K. Jensson en fjöldi sjálfboðaliða kom að byggingu kirkjunnar, jafnt ungir sem gamlir og sköpuðu þessa sterka tilfinningu, að Bústaðakirkja er kirkjan okkar. Helgidómur sem er eign íbúa sóknarinnar, sem alla tíð hafa látið sér annt um sína kirkju.