Messur 10. mars sem er 1. sunnudagur í föstu.

6.3.2019

Sunnudagur 10. mars 2019 - 1. sunnudagur í föstu.

Sunnudagaskóli kl. 11:00 Fjölbreytt tónlist og fræðandi starf fyrir börnin. Daníel Ágúst, Sóley Adda, Jónas Þórir og Pálmi leiða samveruna. Foreldrar og afar og ömmur hvött til þátttöku með börnunum.

 

Guðsþjónusta kl. 14:00

Kór Bústaðakirkju syngur, Jónas Þórir við hljóðfærið. Messuþjónar aðstoða. Prestur sr. Pálmi Matthíasson. Heitt á könnunni og spjall eftir messu.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Fyrri ritningarlesturinn þessum síðasta sunnudegi eftir þrettánda er úr   

I Mósebók  4. kafla versum 3 - 7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Þannig hljóðar hið heilaga orð.  / Guði sé þakkargjörð.

 

Síðari ritningarlesturinn er úr 1. Jakobsbréfi 1. kafla versum 12 - 16.

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.  /  Dýrð sé þér Drottinn.

 

Guðspjall dagsins er frá Lúkasi 22. kafla versum 24 – 32.

 

24. Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur.
25. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.
26. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.
27. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
28. En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum.
29. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér,
30. að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
31. Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.
32. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.

Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall. / Lof sé þér Kristur.