Grein eftir sr. Maríu Ágústsdóttur
Árið 1940 var ákveðið með lögum að Kjalarnesprófastsdæmi skyldi skipt og stofnað nýtt prófastsdæmi. Þá varð Reykjavíkurprófastsdæmi til. Því var síðan skipt árið 1991 í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og vestra. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra nær yfir tíu prestaköll, frá Seltjarnarnesi að Reykjanesbraut og Fossvogsdal. Skrifstofa prófastsdæmisins er nú í Hallgrímskirkju.
Kirkja hefur staðið í Reykjavík frá því fljótlega eftir kristnitökuna og snemma risu kirkjur í Engey, í Nesi á Seltjarnarnesi, Viðey og Laugarnesi. Þær kirkjur voru allar formlega lagðar niður á ofanverðri 18. öld og sameinaðar Reykjavíkursókn, nema Viðeyjarkirkja, sem heyrði undir Mosfell í Kjalarnesprófastsdæmi til 1986, er hún varð eign Reykjavíkurborgar.
Mikil tímamót urðu með lögum frá 7. maí 1940, þar sem Reykjavík var skipt í 4-6 sóknir, sem vera skyldu sérstakt prófastsdæmi með dómprófasti. Í desember sama ár fóru fram prestskosningar og þjónuðu þá 6 prestar í 4 prestaköllum íbúum Reykjavíkur, alls 37.897 manns, sem áður höfðu notið þjónustu tveggja presta, auk fríkirkjuprestsins. Þessi prestaköll voru: Dómkirkjuprestakall, Halgrímsprestakall, Laugarnesprestakall og Nesprestakall.
Árið 1952 voru íbúar Reykjavíkur orðnir 58.761. Það ár voru stofnuð þrjú ný prestaköll með 4 sóknum; Bústaðaprestakall (skiptist í Bústaðasókn og Kópavogssókn), Háteigsprestakall og Langholtsprestakall. Tíu árum síðar, þegar íbúafjöldinn taldi 76.401, var ljóst að enn þurfti að fjölga, og árið 1964 voru Ás- og Grensásprestaköll stofnuð. Yngsti söfnuður, sem telst til Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, Seltjarnarnessöfnuður, var stofnaður 1974, og gerður að sérstöku prestakalli 1986.
Dómprófastar:
Sr. Friðrik Hallgrímsson 1940-1945
Sr. Bjarni Jónsson 1945-1951
Sr. Jón Auðuns 1951-1973
Sr. Óskar J. Þorláksson 1973-1976
Sr. Ólafur Skúlason 1976-1989
Sr. Guðmundur Þorsteinsson 1989-2000
Prófastar Reykjavíkurprófastsdæmis vestra:
Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson frá stofnun þess 1991
Sr. Ragnar Fjalar Lárusson leysti hann af 1994-1997
Héraðsprestar:
Sr. Ingólfur Guðmundsson 1991-1993 í báðum prófastsdæmunum; til 1996 í vestra
Sr. Gylfi Jónsson 1996-2000
Sr. María Ágústsdóttir leysti sr. Gylfa af 1998-1999; skipuð í embættið haustið 2000
Sr. Bára Friðriksdóttir 2004-2005 (í barnsburðarleyfi sr. Maríu)
Sr. Hans Markús Hafsteinsson, ráðinn í sérverkefni frá 2006
Skrifstofustjóri frá 1991:
Margrét Bragadóttir
María Ágústsdóttir tók saman með hliðsjón af riti Ástráðs Sigursteindórssonar: Reykjavíkurprófastsdæmi 1940 – 50 ára – 1990 Ágrip af sögu.